Guðrún Helga Jóhannsdóttir er fimm barna móðir með þrjár háskólagráður og enga þörf fyrir auka dót og drasl. Hún segir samverustundir vera hina sönnu gjöf sem gjarnan megi muna oftar eftir. Saga Guðrúnar er ævintýri líkust. Líkt og mörg ævintýrum eru þó ekki aðeins sól og bjartir dalir í hennar sögu heldur einnig myrkur og stríð sem blæs henni enn frekar hugrekki í brjóst í störfum sínum hjá Barnaheill og við þróunarstarf í þriðja heiminum
Guðrún býr í dag í Grímsnesinu ásamt eiginmanni sínum Yakhya Diop. Guðrún og Yakhya eru rík af börnum og eiga bæði þrjú börn frá fyrri samböndum. Saman eiga þau Alexander Amadou og Heklu Aïchu svo samanlagt telur fjölskylda þeirra tíu manns. Börnin eru á aldrinum 2-25 ára en börn Yakhya búa í Senegal. Elsta dóttir Guðrúnar er flutt að heiman þannig að í augnablikinu búa fjögur barnanna heima.
Guðrún og eiginmaður hennar hafa tileinkað sér mínímalískan lífsstíl og segja það að eiga minna skila sér í raun í meiri upplifunum og tíma. „Ég ákvað aldrei beint að fara að lifa mínímalískum lífsstíl heldur gerðist það samfara ferðalögum mínum og flutningum,“ segir Guðrún, sem hefur búið í Danmörku, Frakklandi og í Senegal þar sem hún vann að rannsókn fyrir doktorsverkefni sitt.
Ferðalög hafa alltaf verið stór hluti af lífi hennar en hún heldur úti síðunni mommyneedstotravel.com og samnefndri Instagramsíðu. Þar skrifar hún um ferðalög fjölskyldunnar og mínímalískan lífsstíl.„Þegar ég bjó í Danmörku keyrðum við út um alla Evrópu. Ég held að ég hafi alltaf verið með svona mikla ferðaþrá. Ég var þó ekki alltaf svona mínímalísk. Þegar ég bjó í Danmörku fyrir 10 árum síðan var ég í mikilli efnishyggju. Það þurfti allt að vera til, mikið jólaskraut og mikið keypt. Það hefur breyst og í dag finnst mér minna vera meira. Eftir að hafa flutt þrisvar milli landa með bara ferðatöskur þá lærir maður að forgangsraða.“
Einstæð móðir í Senegal
„Við erum ekki hætt að ferðast. Við erum bara í smá pásu að koma okkur upp húsi,“ segir Guðrún sem hefur mikið dálæti á Afríku. Við ætluðum að vera í Senegal yfir jólin en það gekk ekki sökum faraldursins.“
Hún segir Senegal vera góðan stað og að það hafi reynst sér auðveldara að vera einstæð móðir með þrjú börn þar heldur en hér á Íslandi. „Það er mun ódýrara að lifa þar. Ég var með heimilishjálp sem sá um að þrífa og elda ofan í okkur og næturvörð sem tryggði öryggi okkar á kvöldin. Það var farið út í búð fyrir okkur og eldaður kvöldmatur. Það var mjög þægilegt líf en krakkarnir vildu frekar vera á Íslandi.
Aðspurð um hvort hún hafi ekki verið hrædd um öryggi sitt í Senegal segir hún svo ekki vera. „Ég upplifði mig alveg jafn örugga þar og hér, jafnvel öruggari ef eitthvað er. Senegal er með öruggustu löndum í Afríku en það er auðvitað erfitt að horfa upp á fátæktina, þurrkinn og drulluna sem kemur af öllu rykinu og hitanum.“
Guðrún kynntist eiginmanni sínum við komuna til Senegal þar sem hann starfaði sem lögreglumaður og sótti hana og börnin á flugvöllinn. „Hann var svo myndarlegur,“ segir hún og hlær að minningunni aðspurð um hvernig ástarsaga þeirra hafi byrjað. Guðrún bjó samtals í rúm tvö ár í Senegal en flutti til Íslands fyrir þremur árum.
Minna er betra
„Ég starfa sem aðstoðarframkvæmdastjóri Barnaheilla og kenni þróunarfræði í háskólanum svo ég fer bara einu sinni til tvisvar í viku í bæinn og maðurinn minn vinnur á Sólheimum. Við erum bara 50 mínútur í bæinn. Þetta er svo stutt. Það er bara hugarfar að ákveða að búa úti á landi,“ segir Guðrún sem er alsæl í Grímsnesinu þar sem þau hjónin hafa byggt sér hús á jörð foreldra hennar. „Það er unaðslegt að búa hér og við erum jafnvel orðin mínímalískari en áður.“ Þegar Guðrún segir að minna sé meira á hún við veraldleg gæði en af háskólagráðum á hún nóg og er enn að safna. „Ég er lærður stjórnmálafræðingur með master í Afríkufræðum og master í þróunarfræðum og er að klára doktorsgráðu í þróunarfræðum.“
Hún segir námið og ferðalögin hafa kennt sér að fjölskyldan þurfi í raun ekki mikið. „Það kom í ljós að maður þarf svo miklu, miklu minna en maður heldur. Það eru minni áhyggjur sem fylgja því að eiga lítið og minna að taka til,“ segir Guðrún.
Eiginmaður hennar er alinn upp við fátækt og hún segir hann hafa góða sýn á lífið. „Hann sér ekki tilganginn í að eyða í veraldlega hluti. Hann vill leggja fyrir. Ég lærði að spara með honum. Frekar að leggja fyrir og taka af sparifénu ef eitthvað vantar og gera þannig ráð fyrir sparnaðinum.“
Guðrún segir það einnig góða reglu að forgangsraða og elda frá grunni. Þannig verði mun meira úr tekjunum. „Við eltumst ekki við tísku. Við eyðum frekar í upplifanir. Áhugamálið okkar er að fara út að leika og eyða tíma saman og ferðast.“ Fjölskyldufundur Aðspurð um hvernig fólk geti tónað sig niður í neyslu og minnkað kaupgleðina fyrir jólin segir Guðrún að fjölskyldan hafi haldið fjölskyldufund fyrir síðustu jól og í sameiningu lagt línurnar.
„Það sem kom út úr því var að þau vildu samveru. Þau vildu kósíjól. Þau vildu spila saman, vera úti í náttúrunni og vera saman. Þjóðfélagið segir okkur að við eigum baka 50 sortir og allt eigi að vera tandurhreint til þess að það komi jól. En börnunum eru oftast alveg sama. Það er ekki það sem situr eftir. Ég spurði 25 ára dóttur mína hvernig hennar helstu jólaminningar væru og hún sagðist geta lýst þeim í þremur orðum: Kósí, mínímalískt og ekkert stress.“
Hún bendir á að samverustundirnar megi skapa með einföldum hætti en gleðin sé mikil. „Við fórum til dæmis á Geysi og hituðum kakó á prímus um daginn og þeim fannst það geggjað. Það kostaði ekkert. Þetta snýst um að finna út hver forgangsröðunin í lífinu er. Spyrja börnin hvað þau vilji og hvað við þurfum að eiga til þess að geta veitt þeim það. Auka dót og drasl má fara og börnin geta aðstoðað við það og lært að þau þurfa mun minna.“
Guðrún segir að jólin þurfi ekki að fylgja formfestu. Hún haldi þó í jólahugvekjuna, borðhald á slaginu sex og malt og appelsín. Annað skipti litlu máli. „Við vorum til dæmis öll á náttfötunum á jólunum í fyrra. Við gefum líka alveg gjafir en þær eru litlar og helst eitthvað sem vantar. Í fyrra föndruðum við jólatré og hengdum á vegginn. Ég á eftir að bera það undir börnin hvað við gerum í ár. Í Afríku skreyttum við viftuna með jólakúlum.“
Óhugsandi glæpir gegn börnum
Þótt Guðrún lifi fallegu lífi í Grímsnesinu starfar hún í návígi við óhugsandi hrylling í stafi sínu hjá Barnaheillum. Hún segir starfið vera draumastarf, þó að óréttlætið sé mikið víða um heim þá haldi hugsjónin og vissan um að hægt sé að breyta henni á floti. „Við erum sem dæmi að vinna núna verkefni fyrir börn í Kongó sem eru að verða fyrir stríðshörmungum. Þar geisar hræðilegt stríð og ég viðurkenni alveg að stundum er þetta bara of mikið. Tilhugsunin um að það sé verið að slátra börnum á leið í skóla er skelfileg. Ég á sjálf afrísk börn og tilhugsunin um hvað er að gerast í Kongó getur bugað mann. Ég hef setið og hágrátið eftir samskipti við kollega mína þar sem þeir tjá mér að börn eru myrt á hrottafenginn hátt. Stríð í dag eru farin að bitna miklu meira á börnum en þau gerðu fyrir 50 árum. Börn verða skotmörk í stríði. En ég hef séð það frá fyrstu hendi hvað við getum hjálpað mikið og er í nánum samskiptum við kollega mína á vettvangi. Við getum gert svo mikið fyrir lítinn pening,“ segir Guðrún.
Hún talar með hlýju um starfið og fólkið sem gerir þeim kleift að aðstoða börn í neyð. „Starfið er mest fjármagnað með frjálsum framlögum einstaklinga,“ segir Guðrún aðspurð um rekstrarform samtakanna sem eru alþjóðleg hjálparsamtök. Hún er bjartsýn á að verkefnin sem Barnaheill vinna að geti breytt mannslífum og bjargað börnum frá hörmungum.