En fundur Sangay í Hvíta húsinu með meðal annarra Robert Destro, sem er sérstakur erindreki Bandaríkjastjórnar í málefnum Tíbet, markar upphafið að nýrri stefnu Bandaríkjastjórnar í málefnum Tíbet.
Sangay er lýðræðislega kjörinn leiðtogi útlagasamfélags Tíbeta sem hafa safnast saman í regnhlífarsamtökunum Central Tibetan Administration (CTA). Ríkisstjórnin og þingið halda til í Dharamshala á Indlandi þar sem tíbeskir útlagar komu sér upp höfuðstöðvum eftir misheppnaða uppreisn 1959 og flótta frá Tíbet í kjölfarið. Samfélag Tíbeta í útlegð telur um 150.000 manns sem eru dreifðir um allan heim. Flestir eru á Indlandi, Nepal og Bútan en einnig búa margir í Bandaríkjunum og Kanada. Þeir kjósa til þings og kjósa sér forseta sem hefur pólitískt vald eftir að Dalai Lama afsalaði sér völdum sem pólitískur leiðtogi.
Í 60 ár hafa bandarísk stjórnvöld neitað að viðurkenna útlagastjórnina eða taka formlega á móti leiðtoga hennar. Samskipti hafa þó verið á milli aðilanna síðasta áratuginn eða svo en heimsókn Sangay var fyrsta opinbera heimsóknin. Það þýðir í raun að Bandaríkjastjórn hefur nú viðurkennt útlagastjórnina sem löglegan fulltrúa ofsóttra og landflótta útlaga frá hernumdu landi.