Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Fram kemur að áhrif kórónukreppunnar sjáist í tölum um fjölda starfa en störfum hefur aðeins fjölgað í einni atvinnugrein, annarri en hjá hinu opinbera, en það er í veitustarfsemi. Slík starfsemi gæti flokkast með hinu opinbera því flest veitufyrirtækin eru í opinberri eigu.
Haft er eftir Konráði að þrátt fyrir að orsakir og birtingarmyndir kórónukreppunnar og fjármálakreppunnar séu ólíkar þá séu áhrifin á hagkerfið að vissu leyti lík. Annars vegar sé sá fjöldi atvinnugreina sem upplifa samdrátt ekki svo frábrugðinn, hann er 40 nú en var 48 í fjármálakreppunni, og hins vegar er algengt að samdrátturinn hafi verið meiri en 20 prósent í báðum tilfellum.
Þá bendir Konráð á að óverulegur munur sé enn á heildarsamdrætti þá og nú í öðrum greinum en ferða- og fjármálaþjónustu. Hann er um átta prósent í báðum tilfellum. „Engu að síður eru að sumu leyti ólíkar atvinnugreinar sem upplifa nú samdrátt, en bæði þá og nú bitnar kreppan illa á meirihluta greina.“ Víðtæk áhrif kreppunnar þýða að sértæk hagstjórnarviðbrögð duga skammt ein og sér. „Ef tryggja á að atvinnulífið nái kröftugri viðspyrnu þegar bóluefni nær útbreiðslu þurfa aðgerðir og úrræði að virka þvert á atvinnugreinar.“