Pavel Ermolinski, leikmaður Vals í körfubolta og fyrrverandi leikmaður KR, er farinn í hungurverkfall. Hófst það kl. 22 í gærkvöld. Pavel gerir grein fyrir málinu á Twitter en vefurinn Karfan fjallar einnig um það.
Hungurverkfallið er viðbragð Pavels við áframhaldandi banni sóttvarnaryfirvalda við keppni og æfingum íþróttafólks. Í fyrsta tísti sínu um málið skrifar Pavel:
„Í ljósi nýjustu fregna hef ég hafið hungursverkfall. Virkar bæði sem mótmæli og aðhald í æfingalausu umhverfi. Verkfall hefst kl. 22 í kvöld og varir þangað til ég fæ að æfa aftur eða ég dey.“
Rétt fyrir vinnslu fréttarinnar greindi Pavel frá því að hungurverkfallið hefði varað í 20 klukkustundir og hann væri með hausverk. Ætlar hann að drekka bláan Kristal og te.
Þess má geta að síðasta máltíð Pavels áður en hungurverkfallið hófst var samloka.
Í ljósi nýjustu fregna hef ég hafið hungursverkfall. Virkar bæði sem mótmæli og aðhald í æfingalausu umhverfi. Verkfall hefst kl 22 í kvöld og varir þangað til ég fæ að æfa aftur eða ég dey.
— Pavel Ermolinski (@pavelino15) December 1, 2020