fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Pressan

Íranar hóta hefndum en fara sér hægt – Flókið og erfitt mál fyrir klerkastjórnina

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 1. desember 2020 06:59

Frá útför Mohsen Fakhrizadeh. Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær var Mohsen Fakhrizadeh, sérfræðingur í kjarnorkumálum og yfirmaður kjarnorkuáætlunar Írans, borinn til grafar í Íran. Hann var drepinn í árás síðdegis á föstudaginn. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á hendur sér á morðinu en Írana grunar að ísraelska leyniþjónustan Mossad hafi staðið á bak við morðið og hafi notið stuðnings Bandaríkjanna. Íranska klerkastjórnin hefur hótað hefndum en hvenær hún mun eiga sér stað og gegn hverjum hún mun beinast er ekki vitað.

Hassan Rouhani, forseti, sagði um helgina að Íran muni hefna sín á „réttum tímapunkti“. Á sunnudaginn var rætt á þingi landsins hvort meina eigi alþjóðlegum eftirlitsmönnum með kjarnorkuáætlun Írans að koma til landsins. Einnig var ákveðið að auka framleiðslu á auðguðu úrani úr 4% í 20% af úranbirgðum landsins. Íranar íhuga einnig að segja sig frá alþjóðlegum samningi um takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna.

Á síðustu árum hafa nokkrir vísindamenn, sem tengdust kjarnorkuáætlun Írans, verið myrtir. Af þeim sökum naut Fakhrizadeh verndar yfirvalda en það kom ekki í veg fyrir að árás væri gerð á bílalest hans á föstudaginn þegar hún var stödd um 60 km austan við höfuðborgina Teheran.

Íranski byltingarvörðurinn

Fréttum íranskra fjölmiðla af atburðinum ber ekki alveg saman. Fars fréttastofan segir að Nissan pallbíll hafi sprungið fyrir framan bílalestina og síðan hafi vopnaðir menn drepið Fakhrizadeh og einn lífvarða hans í skothríð.

AP-fréttastofan sagði í gær að í ræðu sem Ali Shamkhani, öryggismálaráðherra, flutti við útför Fakhrizadeh hafi komið fram að skotið hafi verið úr fjarstýrðri vélbyssu á bílalestina. Hún hafi verið fest á pallbíll sem var í um 150 metra fjarlægð frá bílalestinni. „Ekkert fólk var á staðnum,“ sagði Shamkhani.

Írönsk yfirvöld segja að Fakhrizadeh hafi starfað sem vísindamaður við háskóla í Teheran en bæði bandarísk og ísraelsk yfirvöld segja hann hafa stýrt tilraunum Írana til að smíða kjarnorkusprengju. Fyrir tveimur árum sagði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, að fólk ætti að muna nafn Fakhrizadeh þegar hann ræddi um kjarnorkuvopnadrauma Írana. Þetta sagði hann þegar hann lagði fram gögn um kjarnorkuvopnaáætlun Írana sem Ísraelsmenn höfðu stolið úr írönskum skjalageymslum.

Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, segir að vísbendingar séu um að Ísrael hafi staðið á bak við tilræðið. Mossad hefur áður myrt íranska kjarnorkuvísindamenn að því að talið er og hefndu Íranar sín meðal annars árið 2012 þegar hryðjuverkasamtökin Hizbollah, sem er stýrt frá Íran, réðust á ísraelska ferðamenn í Búlgaríu.

Ísraelsmenn hafa ekki tjáð sig um drápið á Fakhrizadeh en hafa aukið viðbúnað sinn til að koma í veg fyrir hugsanlega hefnd Írana. En það er ekki víst að hefnd sé yfirvofandi á næstu dögum. Þrátt fyrir að mikil reiði ríki í Íran vegna málsins þá hafa stjórnvöld einnig áhuga á að bíða fram yfir forsetaskiptin í Bandaríkjunum. Donald Trump hefur rekið harða stefnu gegn Íran og gæti brugðist harkalega við ef árásir Írana beinast gegn Bandaríkjunum, bandamönnum Bandaríkjanna eða bandarískum hagsmunum. Joe Biden, verðandi forseti, hefur hins vegar gefið í skyn að hann vilji reyna að ná samningum á nýjan leik við Írana um kjarnorkumál. Ef Íranar hefna sín núna gæti orðið erfitt fyrir Biden að semja við þá og því er klerkastjórnin í ákveðinni klemmu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 5 dögum

Ítalskur bær neyðist til að vísa ferðamönnum á brott vegna vatnsskorts

Ítalskur bær neyðist til að vísa ferðamönnum á brott vegna vatnsskorts
Pressan
Fyrir 5 dögum

Sjö ávanar sem gera tannlækninn þinn ríkan

Sjö ávanar sem gera tannlækninn þinn ríkan
Pressan
Fyrir 5 dögum

Prestur barði eiginkonu sína fyrir að vera heppin

Prestur barði eiginkonu sína fyrir að vera heppin
Pressan
Fyrir 6 dögum

„Gerist bara einu sinni á ævinni“ – Einstakt tækifæri til að sjá sprengingu á dvergstjörnu

„Gerist bara einu sinni á ævinni“ – Einstakt tækifæri til að sjá sprengingu á dvergstjörnu