Boris Johnson, forsætisráðherra, sagðist í gær vongóður um að bóluefni gegn veirunni fái samþykki lyfjaeftirlitsstofnana fyrir jól þannig að hægt verði að hefja bólusetningar. „Ekkert bóluefni hefur enn fengið viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda en það er alveg ljóst að við vonumst til að bæði Pfizer-BioNTech bóluefnið og bóluefnið frá Oxford-AstraZeneca fái hana. Við vonumst eftir samþykki á næstu dögum og vikum,“ sagði Johnson í gær þegar hann heimsótti lyfjafyrirtæki.
„Stærsti hluti bólusetningarinnar mun fara fram í janúar, febrúar og mars. Við vonumst til að hlutirnir byrji að færast aftur í eðlilegt form eftir páska,“ sagði Hancock.
Andrew Pollard, prófessor og stjórnandi bóluefnaþróunar Oxfordháskóla, segir að bóluefnið sem háskólinn hefur þróað í samvinnu við AstraZeneca sé „áhrifaríkt bóluefni sem geti bjargað mörgum mannslífum“. BBC segir að bóluefnið hafi þann stóra kost að það sé nóg að geyma það í venjulegum ísskáp og því verður auðveldara að dreifa því um heiminn en öðrum bóluefnum. Til dæmis þarf að geyma bóluefnin frá Pfizer-BioNTech og Moderna við miklu lægra hitastig, allt niður í 70 stiga frost. Einnig er Oxford-bóluefnið miklu ódýrara en hin að sögn BBC.