fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Pressan

Konunglega hneykslið sem var falið 35 km frá höllinni

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 1. desember 2020 05:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

T-laga, 15 sm hár plastkross var það sem prýddi gröf hennar þegar hún var lögð til hinstu hvílu á köldum janúardegi 1986. Efst á krossinum stóð „M 11125“, fyrir neðan Bowes-Lyon. En eftir því sem sagan segir þá var Nerissa Bowes-Lyon úrskurðuð látin 46 árum áður. Hún þótti skammarblettur á bresku konungsfjölskyldunni og því þótti rétt að stroka hana út úr sögu hennar.

Þetta vita þeir kannski sem hafa horft á nýjustu þættina af The Crown sem Netflix býður upp á. Í þeim er fjallað aðeins um það sem sagt er vera stórt og hörmulegt leyndarmál Elísabetar II drottningar. Málið komst í hámæli þegar Nerissa Bowes-Lyons lést og fékk mikla umfjöllun í fjölmiðlum.

„Við höfum nákvæmlega ekkert um þetta að segja. Þetta er mál Bowes-Lyon-fjölskyldunnar,“ sagði talsmaður konungsfjölskyldunnar á sínum tíma þegar reynt var að lægja öldurnar sem sneru að leynilegum frænkum Elísabetar II sem voru lokaðar inn á heimili fyrir fatlaða. Heimilið var á Royal Earlswooe sjúkrahúsinu nærri Redhill í Surrey. Aðeins 35 km frá Buckingham Palace þar sem drottningin býr.

Fjölbreytileiki var ekki vel séður

Þegar Nerissa og Katherine-Bowes-Lyon fæddust 1919 og 1926 inn í aðalsborna fjölskyldu þótti það ekki gott mál því óhætt er að segja að fjölbreytileika og frávikum frá því sem talið var eðlilegt hafi ekki verið fagnað. Báðar fæddust þær með líkamlega og andlega fötlun sem var ekki aðeins talin ógn við samfélagið á þessum tíma heldur einnig beintengt við lágstéttir samfélagsins. Foreldrar þeirra voru John Herbert Bowes-Lyon og eiginkona hans Fenella. John var bróðir Elizabeth Bowes-Lyon sem er móðir Elísabetar II drottningar. Nerissa og Katherine og Elísabet II voru því systkinabörn.

Systurnar þóttu því smánarblettur á aðalsfjölskyldunni Bowes-Lyon. Þær áttu systurina Anne sem var heilbrigð. En þótt þær þættu vera smánarblettur á fjölskyldunni bjuggu þær heima allt til 1941 þegar þær voru fluttar á heimili fyrir fatlaða. Þar voru þær næstu tæpu hálfa öldina og voru hunsaðar af ættingjum sínum allan þann tíma.

Systurnar með móður sinni. Skjáskot/YouTube

„Þetta er svo sorglegt. Hugsið ykkur hvernig líf þeirra hefði getað verið,“ sagði Onelle Braithwaite, fyrrum hjúkrunarfræðingur á heimilinu, í heimildarmynd sem Channel 4 sýndi 2011 um systurnar og örlög þeirra. Myndin varð til þess að málið komst aftur í hámæli. „Þær gátu ekki talað  en þær gátu bent og gefið frá sér hljóð. Þegar þú varst búin að kynnast þeim skildir þú hvað þær voru að reyna að segja. Þær skildu báðar mun meira en maður hélt,“ sagði Braithwaite einnig.

En það var ekki nóg því eftir að móðir þeirra lést á sjöunda áratugnum heimsótti enginn þær. „Þær fengu aldrei afmæliskort eða jólagjafir,“ sagði Braithwaite einnig.

Íbúar á svæðinu og starfsfólk heimilisins vissi hverjar systurnar voru og að þær tengdust konungsfjölskyldunni og ýmislegt bendri til að systurnar hafi einnig vitað um ætt sína. „Ef drottningin eða drottningarmóðirin voru í sjónvarpinu hneigðu þær sig mjög djúpt. Það voru greinilegar einhverjar minningar sem sátu í þeim,“ að sögn Braithwaite.

Katherine og Nerissa. Skjáskot/Netflix

Minningarnar komu berlega í ljós í júlí 1981 þegar Karl prins og Díana Spencer gengu í hjónaband. Systurnar fylgdust með brúðkaupinu í sjónvarpinu og sagði Braithwaite að þær hafi vinkað drottningunni þegar hún vinkaði til mannfjöldans, um leið hafi gleðihljóð borist frá þeim. „Ásamt samstarfsfólki mínu gat ég ekki annað en hugsað um ef hlutirnir hefðu verið öðruvísi hefðu þær verið gestir í brúðkaupinu.“

En systurnar voru aldrei gestir í stífpússuðum húsakynnum konungsfjölskyldunnar og voru aldrei viðurkenndar sem hluti af fjölskyldunni.

Ef það er rétt sem kemur fram í The Crown þá vissu hvorki Elísabet II eða Margrét prinsessa um tilvist systranna fyrr en í upphafi níunda áratugarins. Þær höfðu trúað sögubókum þar sem sagt var að systurnar væru látnar. „Það var til að vernda konungsfjölskylduna,“ sagði drottningarmóðirinn í þáttunum um ástæðu þess að leyndarmálið var svo vel varðveitt árum saman. Að það hafi verið ótti við að sjálft konungdæmið væri í hættu ef það kæmi fram í dagsljósið að andleg veikindi gerðu einnig vart við sig hjá fólki með blátt blóð í æðum.

Það breytti engu þótt tilvist systranna kæmist í hámæli, konungsfjölskyldan sýndi þeim engan áhuga. Drottningarmóðirin sendi ávísun til heimilisins og voru peningarnir notaðir til að kaupa leikföng og sælgæti handa heimilisfólkinu en auk systranna bjuggu þar þrjár aðrar frænkur drottningarinnar.

Nerissa lést 66 ára að aldri og voru nokkrir starfsmenn heimilisins viðstaddir útförina og settu plastkrossinn á leiðið. Katherine lést 2014, 87 ára að aldri. 73 af þessum árum eyddi hún á lokuðum stofnunum. Hún var jarðsett við hlið systur sinnar. Hjá þeim hvíla einnig hinar þrjár frænkurnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Getur hjátrúin sagt til um gestakomur?

Getur hjátrúin sagt til um gestakomur?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Kínverskur njósnari fékk leyfi til að gefa út blaðamannaskírteini í Svíþjóð

Kínverskur njósnari fékk leyfi til að gefa út blaðamannaskírteini í Svíþjóð
Pressan
Fyrir 3 dögum

Maðurinn á bak við umdeilda aðferð til að finna ódýrt flug sér ekki eftir neinu

Maðurinn á bak við umdeilda aðferð til að finna ódýrt flug sér ekki eftir neinu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Forsetafrúin blótaði Elon Musk – „Ég er ekki hrædd við þig, fokkaðu þér Elon Musk”

Forsetafrúin blótaði Elon Musk – „Ég er ekki hrædd við þig, fokkaðu þér Elon Musk”
Pressan
Fyrir 4 dögum

Rússar hoppandi illir: „Stórt skref í átt að þriðju heimsstyrjöldinni“

Rússar hoppandi illir: „Stórt skref í átt að þriðju heimsstyrjöldinni“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Sakar Joe Biden um að byrja þriðju heimsstyrjöldina áður en pabbi hans tekur við sem forseti

Sakar Joe Biden um að byrja þriðju heimsstyrjöldina áður en pabbi hans tekur við sem forseti