Staksteinar Morgunblaðsins taka Katrínu Þorgerði Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, fyrir í dálkinum Staksteinar í dag. Þar er Þorgerður kölluð Tobba Kata, hæðst að þekkingu hennar á efnahagsmálum og sagt að hún hafi klofið Sjálfstæðisflokksins sem borið hafi hana á höndum sér, „til þess eins að geta tekið þátt í borgarsukkinu með Degi, sérfræðingi í því.“
Þá eru rifjaðar upp undir rós háar lánaafskriftir Kristjáns Arasonar, eiginmanns Þorgerðar, frá því í efnahagshruninu í kringum 2008.
Mogginn notast við bloggpistil Páls Vilhjálmssonar til að hæðast að andstöðu Þorgerðar við krónuna. Þar segir:
„Íslenska krónan ber ábyrgð á kreppunni vegna Kínaveirunnar, segir formaður Viðreisnar efnislega. Í Evrópu er engin verðbólga eins og hér á Íslandi, kemur úr koki Tobbu Kötu. Formaðurinn veit ekki, eða þykist ekki vita, að Evrópu glímir við verðhjöðnun, sem er margfalt verri en verðbólga.
Allir sem eitthvað kunna í hagfræði, lögverndaðir eða ekki, vita þetta. Tobba Kata kann ekki hagfræði og heldur ekki einföldustu atriði um áhrif Kínaveirunnar á eftirspurn í ferðaþjónustu – sem kemur krónunni nákvæmlega ekkert við.
En Tobba Kata kann að spila golf, ójá, enda hvorki verðbólga né verðhjöðnun á vellinum í Hveragerði. Ónei, sei, sei.“
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, birtir skjáskot af Staksteinum á Facebook í dag og skrifar:
„Í hvaða hugmyndafræðilega skóla leita Davíð Oddsson, Páll Vilhjálmsson, Trump og þeirra líkar þegar þeir smíða uppnefni á fólk sem þeir óttast?“
Um 60 ummæli hafa birst undir færslunni sem flest lýsa hneykslun á pistlinum.
Jasmina Vajzovic Crnac, stjórnmálafræðingur sem starfar í Viðreisn, skrifar:
„Vá hvað þetta er ósmekklegt. Þetta er aðferð sem er notuð til lítillækkunar. Fyrirlitningu jafnvel.“
„Hvað var borgarstórinn aftur kallaður á þessum vettvangi? Jón G. Kristinsson? Svolítið eins og þegar maður ætlaði að spæla einhvern í skólablaðinu í þá tíð,“ skrifar Egill Helgason fjölmiðlamaður og vísar þarf til nafngiftar Staksteina á Jóni Gnarr.
„Þetta er örugglega einn ómálefnalegasti pistill sem ég hef lesið lengi. Skjálfti í fólki?“ skrifar Ólafur G. Skúlason.