„Við vorum komin mjög langt niður, komin niður í 3 smit og enginn utan sóttkvíar og maður var að vona að þetta myndi halda sér í því. Síðustu daga hefur þetta hins vegar farið hækkandi og sérstaklega smit utan sóttkvíar,“ segir Þórólfur. „Það bendir til þess að þetta haldi áfram og þá gæti þetta farið í veldisvöxt og ef þetta er farið að tvöfaldast til dæmis á hverjum degi að þá er þetta fljótt að fara í háan fjölda.“ Fyrir almenning segir Þórólfur þetta fyrst og fremst þýða að smitum sé að fjölga úti í samfélaginu. „Undirliggjandi er sú staðreynd að það þarf ekki að taka langan tíma þar til við værum komin með mjög mikið af smitum í samfélaginu eins og við vorum að sjá í haust.“
Þórólfur minnir á, að af sögunni að dæma tekur um viku fyrir fjölgun smita í samfélaginu að skila sér í fjölgun á innlögnum á sjúkrahús vegna Covid-19.
Hann segir að smitin í dag séu mörg vegna samkoma fólks. „Þetta er fólk sem er að fara á samkomur og í veislur þar sem hópamyndun er og hverskyns hópamyndun er áhættusöm. Þess vegna erum við að biðla til fólks að passa sig og gæta vel að einstaklingsbundnum smitvörnum.“
Þórólfur segir að hans ráðleggingar hafi alltaf verið að aflétta takmörkunum hægt og tölur síðustu daga undirstriki enn frekar mikilvægi þess að stíga varlega til jarðar. „Jafnvel þó við værum að horfa upp á bjartari tíma þá var það alltaf mín ráðlegging að fara hægt í tilslakanir. Það væri mjög óvarlegt að sleppa fram af okkur beislinu núna og það yrði þá með þeim afleiðingum sem við höfum verið að glíma við undanfarna mánuði.“ Þórólfur segir að slíkt yrði ekki skemmtilegt. „Þá er held ég betra að þreyja þorrann og reyna að halda þetta út.“
En þýðir það að sjálf jólin séu nú undir í baráttunni við Covid?
„Jólin verða eitthvað öðruvísi hjá okkur núna,“ segir Þórólfur „Við verðum að minnka þessa hópamyndun á jólunum, en við getum alveg haldið jól þó við séum ekki að hópast saman í veislur og partý.“
Í viðtali DV við Júlíu Ósk Atladóttur, framkvæmdastjóra Distica dreifingaraðila bóluefnisins við Covid-19 á Íslandi, sagði hún að undirbúningur væri nú á fullu fyrir dreifingu bóluefnis við veirunni hér á landi. Þórólfur segir þá vinnu vera einnig hafna á sinni skrifstofu í samvinnu við heilsugæslur landsins. „Það er viðbúið að dreifingin verði aðeins öðruvísi með þetta tiltekna bóluefni en önnur og þá vegna þess að það þarf að geyma það og flytja við -80°C,“ útskýrir hann. „Mér þykir allt eins líklegt að þetta bóluefni verði sent á stærri stöðvar og þá vegna þess að það er erfitt að koma því í minni skömmtum á minni stöðvar.“
Þá segir Þórólfur að nýtt bóluefni þurfi, áður en það kemst í almenna dreifingu hér á landi, að hljóta blessun Lyfjastofnunar Evrópu þar sem Íslendingar fylgja Evrópureglugerðum í þessu. „Íslenska lyfjaeftirlitið hefur auðvitað sitt að segja, en heilt yfir fylgjum við Evrópu í þessum efnum.“
Aðspurður hvort hann sé ekki kominn með Covid-leiða eins og aðrir, svarar hann með semingi: „Jú, það eru auðvitað allir orðnir leiðir á þessu,“ og heldur áfram í ákveðnari tón: „En við bara höfum ekkert um annað að velja. Um leið og við látum þetta fara í taugarnar á okkur þá bara fáum við bara í bakið.“ Íslendingar standa nú frammi fyrir tveim valkostum segir Þórólfur. „Við getum sleppt þessu bara og fengið þetta á skrið og þá með þeim afleiðingum sem fylgja því, eða við getum reynt að hafa einhvern hemil á þessu. Það gerum við ekkert öðruvísi en að standa saman.“ Mun þar mestu ráða hvernig einstaklingar bregðast við nú og á næstunni, segir hann og minnir á reglur þríeykisins: Passa nánd, sameiginlega snertifleti og aðra snertingu. „Þetta er í sjálfu sér ekkert flókið, hreinsa hendur og passa nánd við aðra og svona.“