Konan var forráðamaður stúlkunnar þegar hún skildi hana eftir hjá fjölskyldu í Úganda í september á síðasta ári. Ekstra Bladet skýrir frá þessu. Stúlkan er danskur ríkisborgari, uppalin í Danmörku, og stundaði nám í dönskum grunnskóla á þessum tíma.
Lögin um „enduruppeldisferðir“ snúast um það þegar farið er með börn til útlanda, oft upprunalands foreldra þeirra, til að hægt sé að „bæta“ úr uppeldi þeirra. Stundum þykja þau vera orðin of dönsk í háttum og á þá að reyna að snúa þeim til annarra hátta sem eru foreldrum og/eða forráðamönnum þóknanlegir.
Konan tók vegabréf og farsíma stúlkunnar af henni og skildi hana eftir klæða- og peningalausa hjá fjölskyldunni. Fjölskyldan hafði ekki burði til að sjá fyrir stúlkunni eða greiða fyrir skólagöngu hennar og auk þess áttu þau erfitt með að tala við hana.
Þegar konan kom ein aftur til Danmerkur, níu dögum eftir að hún yfirgaf landið, áttuðu dönsk yfirvöld sig á að hún hafði skilið stúlkuna eftir eina í Úganda. Utanríkisráðuneytinu, sveitarfélaginu, þar sem stúlkan bjó, og lögreglunni í Kaupmannahöfn tókst í samvinnu við fjölskylduna í Úganda að koma stúlkunni aftur heim til Danmerkur eftir mánaðardvöl í Úganda.
Rannsókn málsins leiddi síðan í ljós að konan hafði árum saman beitt stúlkuna ofbeldi, hún hafði meðal annars lamið hana með rafleiðslum. Hún var sakfelld fyrir þetta sem og ofbeldi gegn sínum eigin börnum.