Einkahlutafélagið Ztrong Balkan, sem var með aðsetur í Síðumúla, fór í þrot síðastliðið vor, aðeins rúmu ári eftir að félagið hóf starfsemi. Lýstar kröfur í búið voru um 155 og hálf milljón. Engar eignir fundust í búinu upp í kröfur.
Skiptastjóri var Sigurbjörn Magnússon lögmaður. Segir hann í svari við fyrirspurn DV að um starfsmannaleigu hafi verið að ræða. Fyrirsvarsmaður hennar var Sverrir Halldór Ólafsson.
Sigurbjörn segir í svari sínu:
„Fyrirsvarsmaður félagsins, Sverrir Halldór Ólafsson, lýsti því yfir að um væri að ræða verktakafyrirtæki en réttara væri að lýsa félaginu sem starfsmannaleigu. Félagið sendi starfsmenn á sínum vegum í ýmis byggingaverkefni á höfuðborgarsvæðinu. Stærð gjaldþrotsins skýrist einkum af því að nokkur fjöldi erlendra starfsmanna var á launaskrá félagsins en félagið stóð ekki í skilum á opinberum gjöldum og iðgjöldum í lífeyrissjóð o.fl. vegna þeirra og er það mál nú til skoðunar hjá héraðssaksóknara.“