DV náði í kvöld sambandi við Ævar Annel Valgarðsson, sem eftirlýstur er af lögreglu, vegna íkveikju að Friggjarbrunni í Úlfarsárdal fyrir skömmu.
Ævar segir að ekkert ami að honum og hann gefi sig brátt fram við lögreglu. Hann segir hins vegar alrangt að hann hafi kastað bensínsprengju inn um glugga íbúðar Guðlaugs Þórs Einarssonar á þriðjudagskvöldið í síðustu viku. Hann hafi hvergi komið þar nærri og hafi fjarvistarsönnun. Þetta hafa bæði faðir og móðir Ævars tekið undir í viðtölum við DV.
Nokkrum dögum áður en bensínsprengjunni var varpað inn um glugga að íbúð Guðlaugs birti hann myndband af sér þar sem hann gengur í skrokk á Ævari. Ævar segir við DV að ekki hafi séð á honum eftir þá árás og þetta hafi ekki verið nein misþyrming. Hins vegar sé Guðlaugur þekktur fyrir hrottaskap og hótanir.
„Ég á marga vini og hef enga stjórn á þeim. Ég veit ekki hvort einhver þeirra gerði þetta eftir að myndbandið fór í dreifingu,“ segir Ævar.
Varðandi myndband sem einnig fór í dreifingu sem sýnir Ævar misþyrma pilti þá segir hann að það myndband sé þriggja ára gamalt, hann hafi verið 17 ára en sé tvítugur í dag og hann myndi ekki gera svona núna.
Ævar bendir á að hann hafi fengið tvo sakadóma fyrir 18 ára aldur en engan eftir 18 ár. Það segi sína sögu. „Ég var bara reiður krakki,“ segir Ævar. DV hefur heimildir fyrir því að Ævar hafi upplifað ýmislegt í æsku en hann vill ekki fara út í það.
Ævari fellur mjög þungt að vera sakaður um íkveikjuna sem hann sé fullkomlega saklaus af. Þá hafi lögreglan sakað hann um skilorðsbrot. „Er það skilorðsbrot að vera beittur ofbeldi eins og ég varð fyrir? Ég hef ekki rofið neitt skilorð,“ segir Ævar sem mun fljótlega gefa sig fram við lögreglu og gera hreint fyrir sínum dyrum.
Ævar segist ekki sækjast eftir ófriði en Guðlaugur sé að reyna að hefna sín á honum. Ævar segist alltaf vera tilbúinn að verja öryggi sitt og fjölskyldu sinnar. Hann sækist hins vegar ekki eftir ófriði.