Dunham er ósáttur við að Trump, sem er svokallaður „lame duck“ forseti sem þýðir að hann er sitjandi forseti sem getur ekki aðhafst mikið og bíður þess að láta af völdum, hafi ákveðið að láta taka tvo alríkisfanga af lífi á næstunni í viðbót við þann þriðja sem var tekinn af lífi þann 19. nóvember.
Þá var Orlando Hall tekinn af lífi í Indiana en hann hafði verið dæmdur til dauða fyrir að hafa numið ungling frá Texas á brott 1994, að hafa nauðgað honum og myrt. 8. desember á að taka Lisa Montgomery af lífi og tveimur dögum síðar er röðin komin að Brandon Bernard.
Þetta er í fyrsta sinn síðan 1889 að aftökur eiga sér stað í desember á kosningaári. Þá var Grover Cleveland forseti. Hann fyrirskipaði þá aftöku indíána sem hafði verið dæmdur til dauða í Arkansas.
Lisa Montgomery var dæmd til dauða fyrir morð á barnshafandi konu og ófæddu barni hennar 2004. Brandon Bernard var dæmdur til dauða fyrir tvö morð í herstöð 1990.
Joe Biden hefur tilkynnt að hann hyggist stöðva allar aftökur á vegum alríkisins þegar hann tekur við völdum. Það gerir þessar þrjár aftökur enn umdeildari en ella og margir spyrja sig af hverju það liggur skyndilega svo á að taka fólkið af lífi.