Maður hefur verið ákærður af Héraðssaksóknara fyrir að hafa föstudaginn 26. apríl í fyrra veist að 11 ára drengi í íþróttamiðstöðinni í Giljaskóla á Akureyri. Mun maðurinn hafa neytt drenginn úr bol og buxum og að því loknu slegið drenginn í andlitið með flötum lófa.
Er maðurinn ákærður fyrir líkamsárás í opinberu starfi og broti gegn barnaverndarlögum. Ef opinber starfsmaður gerist sekur um refsilagabrot með athæfi sem telja má misnotkun á stöðu hans, hefur dómari heimild til þess að bæta við refsingu allt að helmingi hennar.
Við líkamsárás liggur allt að sex mánaða fangelsisdómur, sem yrði þá 9 mánuðir ef brotið er framið í opinberu starfi. Við brotinu á barnaverndarlögum sem maðurinn er ákærður fyrir liggur allt að þriggja ára fangelsi.
Í ákærunni kemur fram að Héraðssaksóknari krefjist þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Ekki er að sjá á ákærunni að nein einkaréttarkrafa sé gerð af hálfu forráðamanna drengsins fyrir hans hönd.
Í svari við spurningu DV segir Halla Margrét Tryggvadóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Akureyrarbæjar, að maðurinn hafi ekki starfað í íþróttamiðstöðinni í Giljaskóla frá vori 2019. „Akureyrarbæ er hins vegar óheimilt að upplýsa hvernig/hvort bærinn brást við [umræddu] atviki, þar sem [maðurinn] er ekki einn af æðstu stjórnendum bæjarins,“ segir Halla í svari sínu. Vísar hún jafnframt til upplýsingalaga.
Þá er það tekið fram að Akureyrarbær hafði ekki vitneskju um að atvikið hafi leitt til dómsmáls.