Samverudagatöl eru sniðug leið til að verja meiri tíma með börnunum og gera eitthvað skemmtilegt í leiðinni. Einnig góð leið til að tempra æsinginn sem byggist upp í börnunum með hverjum deginum sem líður nær jólum.
Við tókum saman nokkrar hugmyndir að samveru sem er hægt að eiga með fjölskyldunni á tímum COVID. Þetta þarf ekki að vera flókið eða kosta mikið, það þarf bara að vera samvera.
Það er hægt að hafa dagatalið rafrænt, en við mælum með að henda nokkrum límmiðum á blað og föndra dagatalið. Börn gera ekki himinháar kröfur um útlit svo þú getur ekki klikkað.
Það er sniðugt að skipuleggja þetta þannig að það sem er einfaldast og tekur skemmstan tíma sé á virkum dögum eða á dögum þar sem þú veist að mikið verður að gera, eins og að búa til snjókarl, fara í gönguferð eða lita jólamyndir.
Svo er hægt að sameina ýmislegt, eins og að fara í náttfataísbíltúr og horfa svo á jólamynd, eða skreyta saman og kveikja svo á kertum og lesa bók saman.
Dýrmætar fjölskyldustundir
Hugmyndin er fengin frá móður í Facebook-hópnum Mæðra Tips. Hún og fjölskylda hennar gistu öll saman í stofunni eitt kvöldið. Það er tilvalið að blása upp vindsængur eða fara með dýnur, sængur og kodda fram í stofu, horfa á jólamynd og vera þar yfir nótt. Af öllu í samverudagatalinu þennan desembermánuð segir móðirin að gistipartíið hafi staðið upp úr hjá börnunum.
Nú þegar ekki er hlaupið í leikhús eða á jólasýningar er tilvalið að halda sýningu heima. Það fer eftir aldri barnanna hvaða leikrit eða saga er valin.
Foreldri getur hjálpað til við að búa til búninga, æfa leikritið og þess háttar. Svo er hægt að halda sýninguna fyrir framan foreldra en einnig fyrir ömmur og afa, frænkur og frænda og vini í gegnum fjarfundabúnað.
Undanfarin ár hefur verið hægt að kaupa tilbúin piparkökuhús í IKEA, eina sem þú þarft að gera er að setja það saman. Svo er hægt að búa til eða kaupa tilbúinn glassúr, eitthvað nammi og skraut og öll fjölskyldan getur dúllað sér við þetta eina kvöldstund.
Fleiri hugmyndir fyrir samverudagatal
Fyrir pör eða fjölskyldur með eldri börn
Þessi samvera er örugglega sú dýrasta á listanum. Kaupa þarf striga og málningu, svo bara fara á YouTube og leita að „Bob Ross tutorial“ og þá finnurðu fjölda myndbanda þar sem listamaðurinn Bob Ross leiðbeinir þér í rólegheitum með silkimjúkri rödd sinni um hvernig þú málar flott málverk frá a til ö. Hann er meira að segja með nokkur myndbönd með jólaþema.
Tilvalið fyrir pör til að gera eina kvöldstund og opna rauðvínsflösku með. Líka skemmtilegt fyrir fjölskyldur með eldri börn.
Það er hægt að gera þetta að keppni, í lokin verður flottasta málverkið valið og verðlaun fyrir sigurvegarann. Þú þarft ekki að spreða og kaupa rándýran striga og málningu, þú getur til dæmis farið í Søstrene Grene, Verkfæralagerinn, föndurbúðir eða aðrar verslanir sem selja ódýrar málningarvörur.