Bloomberg skýrir frá þessu. Hann segist sjá fyrir sér að mörg ár muni líða þar til búið verður að koma bóluefninu til allrar heimsbyggðarinnar. Af þeim sökum muni stjórnvöld í mörgum ríkjum halda fast í kröfu um að farþegar, sem vilja komast inn í land þeirra, framvísi neikvæðri niðurstöðu úr sýnatöku.
„Ef maður gefur sér til dæmis að Bretland fái snemma aðgang að bóluefni þá mun það taka eitt til eitt og hálft ár að bólusetja alla þjóðina. Það mun taka enn lengri tíma áður en bólusetningaráætlanir verða farnar að virka vel um allan heim,“ sagði hann í samtali við Bloomberg TV.
Hann sagði að það þyrfti fljótlega að koma fram með viðurkennd kórónuveirupróf fyrir fólk sem kemur til landa þar sem sýnatöku er krafist til að það geti sloppið við sóttkví. Að öðrum kosti gagnist það ekki mikið fyrir flugiðnaðinn.
Á sama tíma hefur ný ógn gegn ferðaiðnaðinum skotið upp kollinum að sögn Washington Post sem segir að í mörgum ríkjum sé nú kominn svartur markaður fyrir fölsk kórónuveirupróf sem veita falskar niðurstöður. Nýlega komu frönsk yfirvöld upp um glæpahring sem starfaði á Charles de Gaulle flugvellinum í París og seldi falsaðar niðurstöður úr kórónuveiruprófum fyrir sem svarar til um 28.000 til 45.000 íslenskra króna. Svipuð mál hafa komið upp í Brasilíu og Bretlandi.