Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, hefur lagt fram nákvæma áætlun um hvernig málin eiga að ganga fyrir sig. Bólusetningar munu fara fram í ráðstefnuhöllum, íþróttahöllum, tónleikasölum og kirkjum. Einstefna verður í gegnum húsin til að koma í veg fyrir að fólk mætist. Við innganginn verður kannað hvort fólk er með hita eða kvef. Þeir sem eru með slík einkenni fá ekki aðgang. Fólk fær einnig bara aðgang eftir að hafa pantað sér tíma.
Hvað varðar bólusetningar eldra fólks, veikra flóttamanna og heimilislausra þá munu færanleg bólusetningateymi sjá um þær. Einnig fara slík teymi á vinnustaði, til dæmis á lögreglu- og slökkviliðsstöðvar. Allt þetta mun hvíla á herðum heilbrigðisstarfsfólks sem fær aðstoð frá hermönnum. Reiknað er með að það taki 15 mínútur að bólusetja hvern og einn, veita viðkomandi nauðsynlegar upplýsingar og ganga frá skráningum. Reiknað er með að hver læknir geti bólusett 96 manns á dag. Síðan þarf að fylgjast með hugsanlegum aukaverkunum og síðan þarf fólk að mæta aftur til síðari bólusetningarinnar. Þjóðverjar þurfa því 160 milljónir skammta af bóluefninu, hið minnsta.
Í Frakklandi miðast undirbúningurinn við að læknar geti ekki geymt bóluefnið því bóluefni Pfizer þarf að geyma við 70 gráðu frost. Yfirvöld hafa því pantað 50 sérsmíðaða frysta undir bóluefnið. Herinn á síðan að taka þátt í dreifingu þess. Bólusetningar munu fara fram á sjúkrahúsum og sérstökum bólusetningarmiðstöðvum.
Í Bretlandi eiga hermenn að sjá um dreifingu bóluefnisins og bólusetningar. Á Ítalíu er enn unnið að skipulagningu en reiknað er með að gamlar lagerbyggingar, íþróttahallir og sýningarsalir verði teknir undir bólusetningar.