Leiðari helgarblaðs DV 20. nóvember 2020
Það þýðir lítið annað en að finna hæfilegt kæruleysi í miðjum faraldri nákvæmra sóttvarnalaga. Sjálf sveiflast ég á milli þess að leyfa mér rauðvínsglas og stóra smá-köku og agressífra útihlaupa um Vesturbæinn til að fá útrás fyrir streituna og hræðsluna við að enda sem Covid-jólakúla.
Í forsíðuviðtali blaðsins í dag ræða Viktoría Hermanns og Sóli Hólm um óbilandi framkvæmdagleði Sóla og sérlegt jafnaðargeð Viktoríu. Þau virðast hafa fundið hæfilega mikið kæruleysi til þess að sætta sig við sturtuleysi í eitt og hálft ár og þvottavélarlaust heimili með fjögur börn. Það er auðvitað ekki þægilegt en þau hafa áttað sig á því að við erum lítið annað en vaninn og það má vel venja sig á minna án þess að lifa minna. Þau hafa heilsuna sína, barnalánið og fljótlega gröfulausan garð.
Ástin er í forgrunni, óhreinatauið og sparslið í bakgrunni.
Það er ljúfur lærdómur sem vert er að hafa í huga. Það er fátt minna aðlaðandi en streita og tilætlunarsemi. Við getum líklega öll gefið aðeins eftir, sætt okkur við minna og í staðinn lifað meira. Tekið aðeins minna til, bakað aðeins meira. Farið í betri kjólinn af engri ástæðu og reynt að skilja kvíða og pirring eftir úti í frostinu. Við þurfum á allri okkar hjartahlýju að halda.
Eldri kona gaf mér fokkmerki í Síðumúlanum þar sem ég sá hana ekki standa við akbraut þar sem ég kom keyrandi. Ég var í þungum þönkum eftir erfiðan dag. Ég átti auðvitað að stoppa fyrir henni en fokkmerkið kom mér samt mikið á óvart. Það er ekki það sem ég á við með kæruleysi. Ég sé frekar fyrir mér mandarínur og grjónagraut, jólapeysu og samverustund á kostnað þrifa og erinda sem þarf svo kannski alls ekkert að reka.
Faraldurinn hefur þó kennt manni það að fastar ferðir í Ikea og Costco eru líklega ekki nauðsynlegar. Eiginlega bara alls ekki. Þó ég vilji auðvitað taka fram að það sé komið mikið af jólaskrauti í Costco og útlensku sælgæti sem fólk alið upp á eyju verður fimm ára við að komast í tæri við.
Ég er mögulega með kassa af Lindt-súkkulaðihreindýrum úti í bílskúr. Og einhverjum kremum sem ég veit ekki alveg hvað gera en voru í flottum kassa og á tilboði. En slík kaup eru þó á undanhaldi. En ímyndið ykkur ef ég hefði verið í jólapeysu þegar konan gaf mér fokkmerkið, hlaupið út og sagt: „Ég veit. Þetta er glatað ástand.“
Gefið henni skrítið krem eða súkkulaðihreindýr og brunað í burtu. Kannski væri hún þá alveg hætt að gefa fólki fokkmerki