„Þetta er allt saman til rannsóknar og lögreglan rannsakar þessi myndbönd sem hafa verið á samfélagsmiðlum og hafa líka ratað á fréttamiðlana. Ég get hins vegar ekki tjáð mig meira um þetta á þessu stigi málsins, en við skoðum þetta allt saman heild sinni,“ segir Elín Agnes Kristjánsdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn og varðstjóri á lögreglustöð 4 hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
DV hefur fengið sent enn eitt ofbeldismyndband sem hefur tengingu við bruna í íbúð við Friggjarbrunn á þriðjudagskvöldið. Málið hófst um síðustu helgi er virkur MMA bardagakappi, maður rétt innan við þrítugt, birti myndband af sér að ganga í skrokk á öðrum manni. Lögregla handtók og yfirheyrði bardagakappann á sunnudag.
Á þriðjudagskvöld varð bruni í íbúð í fjölbýlishúsi við Friggjarbrunn í Úlfarsársdal. Talið er að umræddur bardagakappi búi í íbúðinni. Hann var ekki heima og íbúðin var mannlaus í eldsvoðanum. Lögreglu tókst að slökkva eldinn áður en hann barst í aðrar íbúðir en mikið tjón varð á íbúðinni.
Í gærkvöld birti DV myndband sem sýnir mann henda einhverju sem líkist bensínsprengju inn um glugga íbúðarinnar.
Í morgun birti DV síðan myndband af bardagakappanum þar sem hann hótar manni í síma lífláti og veifar haglabyssu. DV hefur ekki sannanir fyrir því að orsakasamband sé á milli brunans og þessara hótana en flest bendir til þess.
DV barst ábending þess efnis að maðurinn hefði verið handtekinn í kjölfar birtingar þessa myndbands á Facebook í nótt en Elín varðstjóri vildi hvorki staðfesta þær upplýsingar né neita því.
DV barst síðan enn eitt myndbandið af ofbeldi mannsins sem hann virðist hafa sett í birtingu í dag. Myndbandið má sjá hér að neðan en átt hefur verið við myndbandið til að leyna auðkenni mannsins.