Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að aðstandendur mannsins telji að hann hafi ekki fengið læknishjálp eins fljótt og þörf var á.
„Já, með mikilli sorg get ég staðfest að það liggur einstaklingur sem afplánar dóm á gjörgæsludeild. Hann hefur verið í öndunarvél í á aðra viku og ástandið er alvarlegt,“ er haft eftir Guðmundi Inga sem sagðist ekki geta tjáð sig nákvæmlega um hvað gerðist annað en að fanginn hafi veikst mikið skömmu eftir að hann kom í fangelsið.
„Það er alveg ljóst í mínum huga að rannsókn verður að fara fram og við reyndar báðum Fangelsismálastofnun um það strax daginn eftir að þetta mál kom upp. Aðstandendur mannsins telja að ekki hafi verið brugðist við með réttum hætti og strax kallað eftir lækni þegar maðurinn bað um það,“ sagði Guðmundur. Hann sagði jafnframt að á endanum hafi fangavörður hringt á sjúkrabíl en þá hafi ástand mannsins verið orðið mjög alvarlegt.