Rannsóknir undanfarið hafa leitt það í ljós að knattspyrnufólk er í meiri hættu en flestir aðrir til að glíma við heilabilun á seinni árum. Þannig hafa fjöldi knattspyrnumanna í Englandi greinst með heilabilun á eldri árum.
Sir Bobby Charlton goðsögn úr Heimsmeistaraliði Englands frá 1966 greindist á dögunum með heilabilun. Sir Geoff Hurst sem var í þessu merka liði hefur áhyggjur af þessum niðurstöðum og leggur til breytingar á þjálfun fótboltans.
Aukin tíðni heilabilunar hjá knattspyrnufólki er rakin til þess að boltinn er skallaður og þá eru höfuðhögg í leiknum sögð spila stórt hlutverk.
„Fleiri og fleiri eru að ræða þetta, því meiri pressa sem verður á þessu málefni þá gerist eitthvað. Hættan felst í því að þú skallar boltann oft á æfingum. Ég myndi hætta að skalla boltann á æfingum,“ sagði Hurst.
Hann hefur sjálfur lagt til að heilinn hjá sér verði skoðaður þegar hann fer yfir móðuna miklu. Hann vill ítarlegri rannsóknir á tengingu fótboltans við heilabilun.
Hurst hefur horft á fjóra liðsfélaga úr Heimsmeistaraliðinu frá 1966 láta lífið vegna heilabilunar. „Börn eiga að hætta að skalla boltann, heilinn þeirra er ekki eins þroskaður og hjá fullorðnum.“