The New York Times segir að Trump sé enn reiður vegna tapsins en samtímis njóti hann þeirrar ringulreiðar sem óneitanlega ríkir þessa dagana. „Trump veit vel að hann tapaði en það hindrar hann ekki í að halda því gagnstæða fram,“ hefur blaðið eftir ónafngreindum heimildarmanni.
„Forsetinn styður hverja brjálæðislega samsæriskenninguna á fætur annarri. Hann trúir þeim ekki endilega en hann veit að þær valda ruglingi og ringulreið. Ringulreið færir honum meiri tíma til að hugleiða hvað bíði hans í framtíðinni,“ hefur útvarpsstöðin NPR eftir heimildamanni í Hvíta húsinu.
Það er einmitt stóra spurningin: Hvað bíður Trump í framtíðinni?
En enn um hríð mun Trump reyna að sá efasemdum um lögmæti forsetakosninganna og halda því fram að víðtækt kosningasvindl hafi kostað hann sigurinn. Hann hefur ekki getað fært fram nein rök fyrir þessum fullyrðingum. Fréttir herma að bæði Ivanka, dóttir hans, og Jared Kushner, eiginmaður hennar, auk valdamikilla Repúblikana hafi reynt að sannfæra hann um játa sig sigraðan.
Þegar hann flytur út úr Hvíta húsinu þann 20. janúar á hann ýmsa valkosti. Andstæðingar hans munu halda því fram að hann eigi að enda í fangelsi vegna ýmissa mála er honum tengjast. Má þar nefna meint skattsvik og ásakanir um kynferðislegt ofbeldi.
Því hefur verið haldið fram að Trump sé nú þegar með nýja sjónvarpsstöð á teikniborðinu, MAGA-TV, sem eigi að ná til alls landsins. Fox News er sagt vilja greiða honum milljónir dollara fyrir að gerast þáttastjórnandi hjá stöðinni. The New York Post segir að einnig geti Trump rakað inn milljónum dollara á að skrifa bækur, halda fyrirlestra og á kvikmyndasamningum.
En framtíðin gæti einnig leitt hann aftur í Hvíta húsið því fréttir hafa borist af því að Trump sé nú þegar farinn að undirbúa forsetaframboð eftir fjögur ár. Ef hann vill bjóða sig fram eftir fjögur ár er fátt sem getur stöðvað hann því hann hefur Repúblikanaflokkinn nær algjörlega á sínu valdi.