Þegar skemmtiferðaskipið Seadream 1 sigldi úr höfn á Barbados þann 7. nóvember átti ferðin að marka upphafið að endurreisn skemmtiferðaskipaiðnaðarins sem hefur farið illa út úr heimsfaraldri kórónuveirunnar. Ferðin átti að senda skýr skilaboð um að farþegar gætu nú verið ferðast með skipunum án þess að þurfa að óttast að smitast af veirunni skæðu. En það fór nú ekki svo vel í ferðinni.
Fimm dögum eftir að skipið lét úr höfn tilkynnti Sea Dream Yacht Club að óþekktur fjöldi farþega hefði greinst með kórónuveiruna. Af þeim sökum var gert hlé á ferðinni og snúið aftur til Barbados. Yfirvöldum var tilkynnt um málið og gripið var til nauðsynlegra sóttvarnaaðgerða til að vernda farþega og áhöfn, sagði í fréttatilkynningu útgerðarinnar. 53 gestir og 66 áhafnarmeðlimir voru um borð. Allir fóru í sýnatöku áður en ferðin hófst en samt sem áður kom smit upp. CNN segir að sjö smit hafi síðar verið staðfest meðal farþega og áhafnar.
Útgerðinni tókst að fara í 21 ferð í sumar við strendur Noregs án þess að eitt einasta smit kæmi upp. Því var fólk bjartsýnt á að það myndi einnig takast í vetraráætlun útgerðarinnar sem hljóðaði upp á 22 ferðir, flestar áttu að hefjast á Barbados.