Fjórum tölvunarfræðingum og/eða kerfisfræðingum var nýlega sagt upp hjá Þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar. Sumir starfsmannanna hafa um 20 ára starfsreynslu.
DV sendi fyrirspurn til sviðsins vegna málsins og fékk eftirfarandi svar frá Óskari J. Sandholt, sviðsstjóra Þjónustu- og nýsköpunarsviðs: „Starfsmönnunum var sagt upp með uppsagnarfresti frá og með 1. október sl. Uppsagnirnar eru vegna skipulagsbreytinga og útvistunar verkefna hjá Þjónustu- og nýsköpunarsviði.“
Þessu tengt hafa borgarfulltrúar Miðflokks og Flokks fólksins kallað eftir því að birt verði opinberlega skýrsla sem Capacent gerði um rekstur Upplýsingatækniþjónustu borgarinnar. Borgarfulltrúar fengu kynningu á innihaldi skýrslunnar en það verður ekki gert opinbert. Kolbrún Baldursdóttir, borgarfullrúi Flokks fólksins, gerði eftirfarandi bókun vegna málsins í borgarstjórn í gær:
„Á fundi mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs 13. febrúar fór fram trúnaðarmerkt kynning á niðurstöðum greiningar Capacent á rekstri Upplýsingatækniþjónustu Reykjavíkurborgar. Bókanir undir liðnum voru færðar í trúnaðarbók.
Gögnin sem hér um ræðir eiga að sjálfsögðu ekki að vera trúnaðarmerkt. Hér er verið að fela slæmt ástand á sviði upplýsingatækniþjónustu, gögn sem eru óþægilegar fyrir stjórnendur. Fulltrúi Flokks fólksins hlustaði á þessa kynningu og eru hvorki í þeim persónugreinanlegar upplýsingar eða annað viðkvæmt. Um er að ræða lýsingu á slæmu ástandi á Upplýsingasviði borgarinnar.
Að leyna þessari greiningu Capacent vekur upp enn meiri tortryggni nú þegar búið er að reka nokkra tölvunarfræðinga og útvista verkefnum s.s. aðstoð við tölvuvinnu og viðhald tölvumála í borginni sem engin ástæða er að útvista Þess er óskað að umrædd greining Capacent komi upp á borð.“