„Kosningarnar 3. nóvember voru þær öruggustu í sögu Bandaríkjanna. Núna eru kjörstjórnir um allt land að fara yfir og leggja mat á framkvæmdina áður en þær birta niðurstöðurnar,“ segir í yfirlýsingu Election Infrastructure Government Coordinating Council og Election Infrastructure Sector Coordinating Council. Þessi ráð bera ábyrgð á eftirliti og framkvæmd með kosningum.
„Það eru engar sannanir fyrir að gögnum hafi verið eytt eða að kjörseðlar hafi glatast, né að atkvæðum hafi verið breytt eða á nokkurn hátt átt við þau,“ segir einnig í yfirlýsingunni.
Trump hefur ekki enn viljað horfast í augu við ósigur sinn í kosningunum og lýsti sig raunar sigurvegara á kosninganótt. Hann hefur ítrekað sagt að rangt hafi verið haft við í kosningunum án þess að leggja fram nokkrar sannanir fyrir því. Það er því spurning hvort hann muni bregðast við yfirlýsingu kjörstjórnanna eða halda sínu striki.
„Í öllum ríkjum, þar sem litlu munar á frambjóðendunum, eru til gögn um hvert einasta atkvæði. Því er hægt að telja hvert einasta atkvæði aftur ef nauðsyn krefur,“ segir í yfirlýsingu embættismannanna.
„Við vitum að margar órökstuddar ásakanir hafa komið fram og margir möguleikar eru fyrir staðlausar upplýsingar um kosningarnar en við getum fullvissað ykkur um að við höfum fulla trú á öryggi og friðhelgi kosninganna okkar. Það ættuð þið einnig að hafa,“ segir einnig í yfirlýsingunni.