Morgunblaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að þetta sé fyrsta stóra fjölbýlishúsið sem kom í sölu í Skarðshlíð sem er nýtt hverfi austan við Vallahverfi. Haft er eftir Aroni Frey Eiríkssyni, löggiltum fasteignasala hjá Ási fasteignasölu, að takmarkað framboð af nýbyggingum í Hafnarfirði eigi stóran hlut að máli varðandi áhugann á húsinu, einnig hafi vaxtalækkanir örvað söluna.
„Það var sama hvaða íbúð það var. Þær seldust allar,“ er haft eftir honum. Íbúðirnar kostuðu 38,5 til 53,5 milljónir.
Á Hlíðarenda vilja greinilega margir búa í þakíbúðum því allar þakíbúðirnar átta í Arnarhlíð 2, Smyrilshlíð 13 og 15 og Valshlíð 16 eru seldar. Í heildina nemur söluverðið á annan milljarð hefur Morgunblaðið eftir Hannesi Steindórssyni, eiganda fasteignasölunnar Lindar.