fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Hann er maðurinn sem getur stöðvað allar tilraunir Biden til umbóta

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 9. nóvember 2020 22:00

Mitch McConnell. Mynd:EPA-EFE/SHAWN THEW

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líklega er hann sá Repúblikani sem flestir á vinstri vængnum hata og telja vera sérstakan verndara stórkapítalista. Hann heitir Mitch McConnell og er leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni. Þar er hann í kjöraðstöðu til að kæfa endurbótaáætlanir Demókrata eða hleypa þeim í gegn.

Kjósendur í Kentucky kusu þennan 78 ára íhaldsmann til setu í öldungadeild þingsins næstu sex árin í síðustu viku um leið og þeir kusu sér forseta. Þetta var í sjöunda sinn sem McConnell er kjörinn á þing. Líkur eru á að Repúblikanar haldi meirihluta sínum í öldungadeildinni á næsta kjörtímabili en það ræðst þó ekki fyrr en í janúar þegar kosið verður um tvö sæti Georgíuríkis. Ef þeir halda meirihlutanum þá er McConnell með alla þræði í höndum sér og verður valdamesti Repúblikaninn í landinu.

Sem leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni mun hann ráða hvað er tekið á dagskrá og þannig getur hann ráðið því hvaða mál eru tekin til afgreiðslu, þar á meðal hvaða mál, sem Joe Biden verðandi forseti vill koma í gegnum þingið, fá afgreiðslu. Hann hefur lofað vinstri vængnum í Demókrataflokknum umtalsverðum endurbótum á einu og öðru og þarf að koma þeim tillögum í gegnum þingið.

En það að McConnell verði væntanlega með stjórn öldungadeildarinnar í sínum höndum getur þýtt að þessi mál komist ekki á dagskrá. Einnig gæti Biden neyðst til að velja ráðherra sem eru öllu hófsamari en hann hafði í hyggju til að fá öldungadeildina til að samþykkja þá. McConnell hefur verið leiðtogi öldungadeildarinnar í sex ár. Á þessum árum hefur hann margoft sýnt að hann hefur engar siðferðilegar efasemdir þegar kemur að því að beita því valdi sem fylgir stöðunni. Hann stóð í vegi fyrir mörgum af forgangsverkefnum Barack Obama á forsetatíð hans og gerði það að yfirlýstri stefnu sinni að tryggja að Obama myndi aðeins sitja á forsetastóli í eitt kjörtímabil. Það gekk þó ekki eftir.

Hann kom einnig í veg fyrir að dómari, sem Obama tilnefndi til setu í hæstarétti átta mánuðum fyrir forsetakosningarnar 2016, fengi að koma fyrir þingnefnd.

Hörð stefna hans hefur gert hann að sérstökum óvildarmanni margra vinstra manna sem telja hann vera verndara stórkapítalista.

Það er því kannski ekki annað að sjá en að áframhaldandi vera McConnell sem leiðtoga öldungadeildarinnar muni verða hrein martröð fyrir Biden. Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur í þessu sambandi velt því upp hvort Biden muni í raun og veru geta stýrt landinu. En það sem gæti kannski orðið til að gera lífið auðveldara fyrir Biden er að hann og McConnell eru gamlir vinir. Biden sat áður í öldungadeildinni og tókst oft á við McConnell þar. McConnell var eini Repúblikaninn úr öldungadeildinni sem var við útför Beau Biden, sonar Joe Biden, 2015. Í síðustu viku sagði McConnell að Biden væri „gamall vinur“. Þeir tveir eru því kannski líklegastir af öllum stjórnmálamönnum í hinu mjög svo klofna pólitíska landslagi í Washington til að geta náð saman um ýmis mál. En það veltur líklega á hvort McConnell telji það þjóna sínum pólitísku hagsmunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Í gær

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“