Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að í grein sem Savulescu skrifaði í the Journal of Medical Ethics segi hann að annað hvort eigi að nota fjárhagslega hvatningu eða öðruvísi hvatningu til að fá fólk til að láta bólusetja sig. Hann bendir þar á beinar peningagreiðslur eða þá að þeir sem eru bólusettir þurfi ekki að nota andlitsgrímur á almannafæri.
„Kostirnir við að greiða fyrir áhættu er að fólk velur þá sjálft að taka hana,“ sagði hann.
Til að ná hjarðónæmi, sem myndi binda enda á heimsfaraldurinn, þurfa 50 til 80% af mannfjöldanum að vera með ónæmi fyrir veirunni.
Savulescu sagði einnig að færa megi rök fyrir að bólusetning verði skylda en ekki valkvæð vegna þess hversu „alvarleg“ ógn lýðheilsu stafi af veirunni. Þessu megi líkja við að fólk er skyldað til að nota öryggisbelti í bílum og herkvaðningu á stríðstímum. Hann er þó þeirrar skoðunar að það sé ósiðlegt að skylda fólk í bólusetningu ef ekki liggur fyrir að bóluefnið sé algjörlega öruggt.