fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Mér finnst makinn minn leiðinlegur

Fókus
Sunnudaginn 8. nóvember 2020 21:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem er kominn með nóg af maka sínum.
_______________

„Ég hef ekki þorað að orða þessa spurningu við nokkurn mann og veit ekki alveg hvernig ég á að koma henni í orð öðruvísi en svona: Mér finnst makinn minn leiðinlegur. Hann er góður, hlýr, duglegur og allt sem flestir myndu óska sér. Við eigum bara mjög sjaldan djúpar og innihaldsríkar samræður. Oft talar hann um eitthvað sem mér finnst óáhugavert, ef hann á annað borð talar. Ef við förum út að borða þá koma vandræðalegar þagnir og ég get það ekki mikið lengur. Mér finnst ég svo vond að segja þetta svona, en get ég gert eitthvað til þess að þykja hann skemmtilegri?“

Þarf tvo til að bæta samband

Sælar. Við verðum að vera sammála um að það gengur ekki til lengdar að þykja maki sinn leiðinlegur. Þú nefnir samt að það sé margt sem þú kannt verulega að meta við hann og það eru allt breytur sem skipta miklu máli, til dæmis góður, hlýr og duglegur. Ég sé því ekkert því til fyrirstöðu að þú/þið getið gert ýmislegt til þess að eiga dýpri og innihaldsríkari samræður og notið þess meira að spjalla saman.

Í parsambandi er vandmeðfarið að taka annan aðilann út fyrir sviga, það er að segja að láta hann laga sig og þá geti sambandið orðið gott. Það þarf yfirleitt alltaf tvo til þess að gera samband betra og þar eruð þið engin undantekning.

Lítill tími fyrir nánd

Það getur verið áhugavert að skoða ykkar „vanda“ út frá ykkar tengslum, ykkar hlustun og ykkar áhugasviði. Því sterkari tengsl við fólk, því áhugaverðara og skemmtilegra getur okkur þótt það.

Skýrasta dæmið, nokkuð sem mörg pör kannast við, lýsir sér þannig að þegar par hefur fjarlægst, hist lítið, haft lítinn tíma fyrir nánd og hvort annað, þá þykir því sömuleiðis minna hvoru til annars koma. Þetta er eitthvað sem margir ungbarnaforeldrar kannast við. Allt í einu fara öll smáatriði í taugarnar á fólki, hvernig hún raðaði í uppþvottavélina eða í hvaða föt hann klæddi krakkann í morgun. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá kemur í ljós að það er bara langt síðan foreldrarnir höfðu tíma til þess að vera par. Undir slíkum kringumstæðum verður allt erfiðara og leiðinlegra. Hvernig er staðan á ykkur þarna? Áttuð þið sterkari tengsl og þá fannst þér hann ekki svona leiðinlegur? Breytist það frá degi til dags hvort þér þyki samtöl hans áhugaverð? Getur verið að með því að setja fókusinn á nándina ykkar á milli þá verði samtölin dýpri?

Mikilvægt að hlusta

Hlustun er gríðarlega mikilvægur þáttur í parsambandi og í hlustun felst svo ótrúlega margt. Í rauninni er góð hlustun tækni sem fólk er misfært í að tileinka sér. Sumir eiga auðvelt með að gera tvennt til dæmis hlusta og elda mat, aðrir þurfa að einbeita sér meira að hlustuninni. Hvað hefur þú reynt varðandi hlustun þegar þú hlustar á manninn þinn? Getur verið að hann finni hvað þér finnst hann leiðinlegur í gegnum lélega hlustun, verði óöruggur og fari að tala um hluti sem hann er öruggur með að ræða? Óöryggi framkallar oft það leiðinlegasta í fólki. Þó þú segir að þú hafir ekki þorað að orða þennan vanda við nokkurn mann, þá er meira en líklegt að maðurinn þinn viti nákvæmlega hvað þér finnst. Að hann skynji það einfaldlega á hlustun þinni.

Skapa dýpra samtal

Jákvæð styrking virkar alltaf betur en neikvæð styrking. Í því felst að þú getur styrkt skemmtilegt samtal milli þín og maka. Með því að sýna jákvæð viðbrögð þegar hann talar um það sem þér þykir skemmtilegt, í stað þess að þú sýnir honum til dæmis svip þegar hann talar um það sem þér þykir leiðinlegt. Ef þú hlustar af áhuga, þá er líklegt að hann muni tala aftur um það sem þú sýndir áhuga.

Ég hvet þig til þess að skoða mismunandi aðferðir til þess að skapa dýpra samtal til dæmis spurningar, leiki og spil (dr. google getur komið að góðum notum þarna). Einfaldar spurningar eins og „hvað myndirðu taka með þér á eyðieyju?“, „hvenær hefur þú orðið hræddastur í lífinu?“, „ef þú ættir eina ósk, hver væri hún?“. Svona spurningar geta kallað á umræðu sem þið hafið aldrei átt

Finna sameiginleg áhugamál

Annað gæti reynst ykkur vel, en það er að skoða ykkar sameiginlega áhuga betur. Getur verið að maki þinn sé alls ekki leiðinlegur, heldur hafi bara önnur áhugasvið en þú? Þarna er hægt að lyfta grettistaki. Fólk getur sameinast svo mikið í gegnum sameiginleg áhugamál og í nútíma samfélagi er svo ótrúlega margt í boði að það getur næstum háð fólki.

Nú veit ég ekki hvort þið eigið börn en oft geta foreldrar sameinast um áhuga sinn á þeim og umræðuefnin á til dæmis stefnumótum oft verið um hvað þau eru frábær. Það getur ekki skaðað neinn. Aftur á móti sýnir þessi barnaumræða okkur að það sem fólk á sameiginlegt dýpkar samtalið og færir fólk nær hvort öðru. Það er því ekki að ástæðulausu að pör kaupa sér stundum útivistarfatnað í stíl og byrja að stunda stífar göngur, golf, skíði eða aðra útivist, þegar börnin flytja að heiman. Bæði gerir fólk meira saman og það hefur eitthvað að tala um. Getið þið fundið ykkur eitthvað nýtt og sameiginlegt sem þið gerið saman, skapar umræðu og færir ykkur meiri gleði? Það er að minnsta kosti til mikils að vinna.

Að lokum, við erum misopin. Sumir spjalla stanslaust, aðrir hlusta meira og hafa minni þörf fyrir að setja allt í orð. Ef við værum öll eins hvað þetta varðar þá væri stanslaust fuglabjarg umhverfis okkur. Kannski þurfið þið parið að njóta þagnarinnar betur? Kannski leynist ykkar lausn í því að gera meira og tala minna? Kannski þurfið þið að vinna meira í tengslunum ykkar á milli svo þið njótið betur samveru við hvort annað? Eitt er víst, ef eitthvað af þessu virkar þá leyfi ég mér að fullyrða að þið verðið bæði glaðari, hamingjusamari og skemmtilegri. Góða skemmtun.

_____________

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vill að RÚV geri samning við Vesturport

Vill að RÚV geri samning við Vesturport
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set