Fjölmiðlakonan Guðrún Sóley Gestsdóttir hefur verið vegan í fjögur ár. Hún segist hafa tekið þá ákvörðun fyrir dýrin og umhverfið. „Ég gat hreinlega ekki lengur fundið nein rök sem mæltu gegn því,“ segir hún.
Guðrún Sóley gaf út matreiðslubók árið 2018, Grænkerakrásir Guðrúnar Sóleyjar, sem hlaut hin eftirsóttu Gourmand-verðlaun og var valin besta veganbók í heimi.
Aðspurð hvort hún hafi ráð til þeirra sem vilja prófa sig áfram í vegan mataræði, segir Guðrún Sóley að það skipti mestu máli að njóta.
„Þetta er svo skemmtileg breyting og gaman að prófa alla þá skrilljón valkosti sem eru í boði. Kannski sniðugt að byrja á einföldum nótum: Prófa fyrst valmöguleika á veitingastöðum, panta heim vegan borgara, pitsur og annað gæðafæði. Næsta skref væri að umkringja sig innblæstri, vegan-væða algóryþmana með því að fylgja alls konar vegan týpum á samfélagsmiðlum,“ segir Guðrún Sóley og bætir við að Instagram sé endalaus gullnáma.
„Og byrja svo að prófa sig áfram á skemmtilegum og einföldum uppskriftum heima við, til dæmis þeim sem finna má á veganistur.is.“
Ef einhver veit hvernig á að setja saman góða vegan máltíð, þá er það Guðrún Sóley. Hún segir að lykillinn sé sósa.
„Ég er sósubrjálæðingur, finnst bara allt betra með margföldu magni af sósu. Líka kryddstyrkur, það þarf að vera bragð af matnum og mér finnst hressandi að leika mér smá með kryddin – kaupa nýjar tegundir og blanda saman á ólíka vegu. Góð vegan máltíð er raunar náskyld góðri annars konar máltíð, því það sem hverjum og einum finnst gott, má auðveldlega yfirfæra á vegan forsendur,“ segir hún.
Þegar kemur að því að velja uppáhaldsmáltíð stendur Guðrún Sóley frammi fyrir erfiðu vali. „Úff. Ægilegt að velja. Þó ég dái alls kyns flókna froðu- og doppu delíkatessen matseld, þá finnst mér einfaldleikinn oft bestur. Gott ristað brauð með ilmandi ólífuolíu og smá salti finnst mér vera máltíð á heimsmælikvarða,“ segir hún.
Guðrún Sóley starfar sem dagskrárgerðarmaður hjá RÚV og lýsir hefðbundnum degi í lífi sínu.
„Ég er svo heppin að vera í dúndurskemmtilegri vinnu – dagarnir eru fjölbreyttir, við erum oftast á stökki milli staða að hitta listamenn og kynnast þeirra verkum og innblæstri. Þess á milli sit ég svo við tölvu og klippi, skrifa og skipulegg. Eftir vinnu reyni ég að koma einhvers konar útivist að. Fjallgöngur eru mitt uppáhald og fyrir mína parta hefur ferska loftið og nálægð við náttúruna verið lífsnauðsynlegt vítamín á kóftímum. Suma daga er hundalabbitúr um hverfið öll útivistin, sem er alls ekki síðra,“ segir hún.
Hafragrautur með möndlusmjöri. Sem oft vill verða samt möndlusmjör með smá hafragraut.
Suðusúkkulaði og kaffi.
Í kófinu frístæla ég bara eitthvað heima við, set kannski hummus, vegan ost, falafel, salat og ófyrirgefanlegt magn af sriracha-sósu í vefju.
Nýtt tvist á gamla klassík: Banani með tahini (sesamfræjasmjöri). Þetta er smá tilbrigði við dýrðina sem er epli með hnetusmjöri, mæli með.
Hér kemur tilbúinn matur oftar til skjalanna en ég kæri mig að viðurkenna. En er ekki rétt að styðja veitingastaði borgarinnar á þrengingatímum? Ég reyni að minnsta kosti að láta ekki mitt eftir liggja og kaupi pitsur, indverskt, sushi og borgara eftir getu. Þegar ég elda er það oftast einfalt rjóma pasta eða BBQbúddaskál.