Nokkrir fyrrverandi starfsmenn hjá Jóa Fel keðjunni sem tekin var til gjaldþrotaskipta fyrir skömmu hafa verið að fá ábyrgðarbréf frá þrotabúi félagsins undanfarið þar sem því er haldið fram að þeir skuldi félaginu peninga. Starfsmennirnir kannast ekki við að skulda félaginu. Er sagt að ef þeir geti ekki framvísað kvittunum um að skuldirnar hafi verið greiddar upp verði gerður reikningur á viðkomandi.
Bréfin eru frá lögmannastofunni Landslög og undir þau skrifar Sveinbjörn Claessen lögmaður fyrir hönd skiptastjóra, Gríms Sigurðssonar lögmanns.
DV spurði fyrrverandi starfsmann hvort um gæti verið að ræða úttektir og sagði hún að úttektir hefði alltaf verið dregnar frá launum og hún hefði hætt störfum hjá Jóa Fel fyrir fimm árum. Í bréfi til þeirrar konu er sagt að hún skuldi rúmlega 20 þúsund krónur.
Önnur kona fékk hins vegar tilkynningu um að hún skuldaði þrotabúinu 267 þúsund krónur og önnur 167 þúsund krónur. Sú sem á að skulda 167 þúsund krónur hætti fyrir löngu síðan og því hefðu allar úttektir átt að hafa verið dregnar frá launum hennar.
Launaseðlar ættu að vera til í félaginu sem sýna svart á hvítu hvort úttektir hafi verið dregnar frá launum.
Í bréfi sem DV hefur undir höndum segir: „Við yfirferð skiptastjóra á bókhaldi hins gjaldþrota félags kom í ljós að skráð er óuppgerð skuld þín að fjárhæð 21.525.- krónur við félagið. Skiptastjóri hefur ekki aðrar upplýsingar úr bókhaldinu en að krafan sé enn útistandandi og ógreidd.“
DV ræddi við aðra konu sem sögð er skulda 247 þúsund krónur. Bréfin til þessarra kvenna eru samhljóða fyrir utan mismunandi upphæðir. Þessi kona vann hjá fyrirtækinu frá janúar 2018 til júní 2019. „Þetta er alveg klikkað. Ég er með alla launaseðlana mína og þeir stemma alveg. Alltaf dregið af manni ef maður tók út vörur hjá bakaríinu og svoleiðis. Ég skulda þeim bara ekki neitt. Ekkert okkar skuldar neitt. Ég treysti þeim að allt væri í góðu svo fær maður þetta bréf beint í andlitið á sér upp úr þurru,“ segir þessi kona og upplýsir að starfsfólk sem vann hjá Jóa Fel árið 2016 hafi líka fengið svona bréf.