Þetta hefur valdið ákveðnum heilabrotum en vísindamenn reyna nú að varpa ljósi á af hverju Afríka hefur sloppið svo vel, út frá heilbrigðissjónarhorni, í gegnum heimsfaraldurinn, miklu betur en Bandaríkin og Evrópa.
Talið er að það eigi hlut að máli að hversu mikið af ungu fólki býr í álfunni en meðalaldur þeirra 1,3 milljarða sem búa í álfunni er aðeins 19,7 ár. Í Evrópu er meðalaldurinn 43 ár. Vitað er að eldra fólk fer verst út úr faraldrinum og þar sem lítið er af því í Afríku skiptir það máli fyrir dánartíðnina.
Sumir vísindamenn hafa bent á að hugsanlega séu Afríkubúar ónæmari fyrir kórónuveirunni en aðrir af því að þeir eru svo útsettir fyrir öðrum tegundum af kórónuveirum og öðrum smitsjúkdómum. Engar sannanir hafa enn komið fram um þetta en nú er verið að rannsaka þetta í Simbabve.
Það getur einnig haft áhrif á tölfræðina að hugsanlega hafa ekki öll tilfelli smits verið skráð eða staðfest eða að færri sýni hafi verið tekin hlutfallslega en í öðrum ríkjum.
Bent hefur verið á að yfirvöld í mörgum Afríkuríkjum hafi brugðist hratt við þegar faraldurinn gaus upp og hafi gripið til áhrifaríkra aðgerða til að hindra útbreiðslu hans. Landamærum var lokað sem og flugvöllum og skólum. Í Suður-Afríku var gripið til umfangsmikilla lokana og bannað var að selja áfengi og tóbak. En það er ákveðin ráðgáta hvernig hin mörgu fátækrahverfi afrískra stórborga hafa sloppið vel frá faraldrinum því þar býr fólk þröngt og hreinlæti er ábótavant.