Fimm voru handteknir vegna málsins á miðvikudaginn en talið er að þrír séu í Kína að sögn embættismanna í dómsmálaráðuneytinu. Fólkið var handtekið í New Jersey, New York og Kaliforníu. Meðal hinna handteknu er bandarískur einkaspæjari. The Guardian skýrir frá þessu.
Á fréttamannafundi sagði John Demers, aðstoðardómsmálaráðherra, að hinir grunuðu tengdust allir alþjóðlegri kínverskri áætlun sem nefnist „Fox Hunt“ en hún miðast að því að finna fólk sem kínversk stjórnvöld vilja hafa uppi á. Kínverjar segja sjálfir að áætlunin snúist um baráttu gegn spillingu og markmiðið sé að hafa uppi á flóttafólki og flytja það til Kína þar sem það svari til saka.
Demers sagði að í mörgum tilvikum sé verið að leita að andstæðingum kommúnistaflokksins vegna skoðana þeirra og það sé skýrt brot á alþjóðalögum.
Í ákærunni kemur fram að fólkið hafi ætlað að neyða fyrrum opinberan starfsmann í Kína, eiginkonu hans og dóttur þeirra til að snúa aftur til Kína. Þau hafa búið í Bandaríkjunum síðan 2010. Fjölskyldan var að sögn áreitt og hótað.