Árum saman var þjónustusamningurinn í höndum Dana og Grænlendinga en 2014 fékk bandarískt fyrirtæki hann. Þetta telja Grænland og Danmörk vera í andstöðu við gildandi samninga við Bandaríkin og í kjölfarið hófust samningaviðræður.
Það voru Kim Kielsen, formaður grænlensku landstjórnarinnar, og Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku, sem skrifuðu undir samninginn. Sermitisaq.ag hefur eftir Kielsen að landstjórnin sé mjög ánægð með samninginn um áframhaldandi samstarf við Bandaríkin. Það hafi verið mikilvægt fyrir landstjórnina og þingið og þjóðina að Grænlendingar hefðu ávinning af veru Bandaríkjamanna í Thule.
Samningurinn kveður á um að í framtíðinni muni dönsk og grænlensk fyrirtæki fá þjónustusamninginn.