Til átaka kom milli tveggja ungra manna, af fremur litlu tilefni, fyrir utan skemmistaðinn Hvítahúsið Sportbar á Selfossi, sumarið 2018.
Maður sem þá var rétt rúmlega tvítugur var ákærður fyrir að hafa ráðist á annan mann fyrir utan umræddan stað og slegið hann ítrekað í höfuð og andlit með þeim afleiðingum að þolandinn hlaut heilahristing, opið sár á vanga og kjálkalið, yfirborðsáverka á augnlok og augnsvæði, og nefbrot.
Brotaþoli lýsti málsatvikum svo, eins og segir í dómi:
„Samkvæmt gögnum málsins kom brotaþoli á lögreglustöðina á Selfossi að morgni dags þann 12. júní 2018 til að leggja fram kæru á hendur ákærða vegna líkamsárásar fyrir utan Hvíta húsið á Selfossi aðfaranótt eða snemma morguns þann 9. júní 2018, um kl. 04:50. Kvaðst brotaþoli hafa verið staddur fyrir utan Hvíta húsið umrætt sinn og hafi verið að ræða við vinkonur sínar þegar ákærði hafi farið að angra hann. Hafi brotaþoli átt einhver orðaskipti við ákærða og m.a. sagt honum að þrífa í sér tennurnar þar sem ákærði hafi verið allur í tóbaki í munnvikum.Hafi brotaþoli svo gengið burt frá ákærða, en allt í einu fengið högg í höfuðið aftan frá. Kvað brotaþoli að ákærði hefði slegið sig með krepptum hnefa fyrirvaralaust án þess að brotaþoli kæmi neinum vörnum við. Síðan hafi hnefahöggin dunið á andliti sínu. Kvað brotaþoli að ákærði hafi a.m.k. náð að slá sig 4 sinnum í andlitið með krepptum hnefa.Þá skýrði brotaþoli frá því að hann hafi ekki slegið á móti og nánast ekki náð að verja sig þar sem hann hafi vankast við fyrsta höggið sem hafi komið aftan frá. Taldi brotaþoli að ákærði hefði staðið einn í þessu, en vinir ákærða hefðu verið þarna við og farið með ákærða burt eftir árásina. Kvaðst brotaþoli ekki hafa kallað eftir aðstoð lögreglu á vettvangi, en sér hafi verið ekið strax á sjúkrahúsið á Selfossi þar sem mikið hafi blætt úr nefi og skurði á kinn.Kvaðst brotaþoli ekki þekkja neitt til ákærða og engar deilur hafi verið á milli þeirra og þetta hafi verið að tilefnislausu. Kvaðst brotaþoli hafa fengið afsökunarbeiðni frá ákærða, en gæti þó ekki annað en lagt fram kæru. Brotaþoli kvaðst sjálfur hafa verið undir áhrifum áfengis, en kvaðst ekki vita um ástand ákærða að því leyti.“