Erdogan hefur verið harðorður í garð Frakka að undanförnu og hefur meðal annars sagt að Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, eigi að fara í geðrannsókn vegna meðferðar hans á múslimum í Frakklandi. Hann hefur einnig hvatt Tyrki til að sniðganga franskar vörur. Erdogan segir Macron vera mjög fjandsamlegan í garð múslima.
Talsmaður Erdogan segir að Charlie Hebdo standi fyrir „menningarlegum rasisma“ með myndbirtingunni.
„Við fordæmum þessa viðbjóðslegu tilraun blaðsins til að breiða út menningarlegan rasisma og hatur. Andmúslímsk stefna Macron forseta ber árangur!“
skrifaði talsmaðurinn, Fahrettin Altun, á Twitter.
Deilurnar hófust í kjölfar hins hrottalega morðs á kennaranum Samuel Paty í París. Hann var myrtur vegna þess að hann sýndi nemendum sínum skopmyndir af spámanninum Múhameð í kennslu um tjáningarfrelsið. Í kjölfarið hafa frönsk stjórnvöld sett ný lög til að berjast gegn „aðskilnaðarstefnu íslamista“. Macron hefur einnig heitið því að verja tjáningarfrelsið sem heimilar einmitt blöðum eins og Chalie Hebdo að birta teikningar af spámanninum Múhameð og nú Erdogan.