Verslunin Tölvutek varð gjaldþrota vorið 2019. Síðar sama ár endurreisti Origo reksturinn og verslunin blómstrar í dag. Skiptum í þrotabú félagsins sem átti verslunina, TT100, er nýlokið og birtist tilkynning um skiptalokin í Lögbirtingablaðinu.
Þar kemur fram að lýstar kröfur í búið voru 433.172.992 krónur. Búskröfuhafar fengu sínar kröfur að fullu greiddar og veðkröfuhafar fengu tæp 30% upp í samþykktar kröfur sínar. Ekki kom til úthlutunar upp í forgangs-, almennar og eftirstæðar kröfur en samþykktar forgangskröfur námu kr. 75.807.278. Ekki var tekin afstaða til almennra og eftirstæðra krafna.
Kröfurnar skiptust upp í sértökukröfur sem voru um 30 milljónir, búskröfur sem voru um 5 og hálf milljón, veðkröfur sem voru um 190 milljónir, forgangskröfur sem voru 107 milljónir, almennar kröfur voru rúmlega 97 milljónir og eftirstæðar kröfur voru 2,3 milljónir.