Ófáar auglýsingastofur róa nú lífróður í ljósi þess að allflest fyrirtæki eru að draga saman seglin. Valgeir Guðmundur Magnússon, stjórnarformaður PIPAR/TBWA, segist brattur og vitneskjan um tímabundna kreppu setji annan tón en í síðustu fjármálakreppu.
Um síðustu mánaðamót var ein stærsta auglýsingastofa landsins, Íslenska auglýsingastofan, tekin til gjaldþrotaskipta. Missir langtímaviðskipta við Icelandair og kórónuveirufaraldurinn voru á meðal helstu ástæðna þess að svo illa fór fyrir þessu gróna fyrirtæki.
Þormóður Jónsson, fyrrverandi eigandi auglýsingastofunnar Fíton, keypti vörumerki og eignir Íslensku auglýsingastofunnar fyrir tveimur vikum ásamt syni sínum Baldvini og hyggst hnoða lífi í stofuna. Þetta gerist í sömu viku og fyrrverandi stórveldi Þormóðs er tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt úrskurði héraðsdóms frá 7. október síðastliðnum.Eigendur Fíton í dag eru samkvæmt fyrirtækjaskrá Guðmundur Hrafn Pálsson og Valgeir Guðmundur Magnússon.
Núll kennitala
Valgeir og Guðmundur eru einnig eigendur auglýsingastofunnar PIPAR/TBWA. sem stofnuð var 2009. Fíton, vefstofan Skapalón, framleiðslufyrirtækið Miðstræti og ráðgjafarfyrirtækið Kansas sameinuðust í janúar árið 2014 undir nýju nafni; Janúar. Janúar liðaðist í sundur sex mánuðum seinna eða 2014 og við það gekk rekstur Fíton inn í Pipar\TBWA.
Virðisaukaskattsnúmer Fíton ehf. var þó ekki afskráð fyrr en í mars 2019 og áfram voru gerðir ársreikningar fyrir kennitöluna og skilað inn á ári hverju. Eins hefur auglýsingamiðlunin GT8 ehf. verið lýst gjaldþrota, en sú kennitala er einnig í eigu Valgeirs og Guðmundar. Áður hét félagið Auglýsingamiðlun ehf. og var starfsemi þess tengd rekstri Fíton ehf. og sá Auglýsingamiðlun um birtingar-mál fyrir Fíton. Aðspurður um gjaldþrotið segir Valgeir að Fíton-kennitalan hafi orðið eftir, eftir sameiningu og enginn rekstur á henni síðan 2014. „Þetta er í raun bara núll kennitala sem lifði áfram.“
Engar uppsagnir
Aðspurður um stöðu auglýsingamarkaðsins á Íslandi segir hann: „Þetta er auðvitað erfiður bransi núna, nánast allir bransar nema sprittbrúsabransinn eiga í erfiðleikum,“ segir Valgeir, í góðlátlegu gríni. „Það er auðvitað samdráttur í okkar bransa. Talsvert mikill, og við verðum að mæta því með alls konar ráðum. Hlutabótaleiðin hefur hjálpað okkur mikið og tókst okkur að forðast uppsagnir.“
Valgeir segir PIPAR/TBWA ekki hafa þurft að segja neinum upp. „Við tímdum ekki að eyðileggja þetta góða teymi sem við vorum búin að byggja upp. Við vorum með frábært teymi sem var að vinna fyrir ferðabransann mikið og þó ferðabransinn sé svo til horfinn þá tímdum við ekki að eyðileggja það. Ef við hefðum farið í uppsagnir hefði teymið bara eyðilagst og við bara tímdum því ekki. Í staðinn fundum við talsvert af erlendum verkefnum fyrir þessi teymi. Það hefur svo líka hjálpað til að þau verkefni skila tekjum í erlendum gjaldeyri og þegar krónan gefur eftir eykst framlegð þeirra verkefna á móti.“
September ágætur
Aðspurður af hverju fyrstu viðbrögð fyrirtækja við kreppu séu gjarnan að skera niður í sölu- og markaðsstarfi svarar Valgeir að það sé einfaldlega auðveldara. „Það er svo sársaukafullt að segja upp fólki, og svona verkefnum eins og við erum að sinna er gjarnan úthýst, einmitt til okkar, svo það er talsvert auðveldara að skera niður kostnað þar, með því að segja upp samningum.“ Hann segir það þó ekki alltaf rétta ákvörðun að stoppa allt markaðsstarf þó í harðbakkann slái. „Auðvitað eru bransar eins og ferðabransinn sem eru að slökkva á öllum útgjöldum enda tekjur sama sem engar, og það skilur maður. En aðrir, og um þetta eru mýmörg dæmi í markaðssögunni, ættu að vera að nýta tímann í ládeyðunni og halda dampi í markaðsstarfi og þegar hlutir fara í gang aftur hafa þau fyrirtæki náð til sín verulegri markaðshlutdeild.Ég myndi giska á í heild að auglýsingabransinn hafi farið niður um 30 prósent. Stærri verkefni í ferðabransanum eru horfin, en önnur minni komin í staðinn. September var til dæmis ágætis mánuður, og það var fyrsta alvöru batamerki frá því í mars, en svo komu þessar takmarkanir aftur.“
Tímabundin kreppa
„Þessi kreppa er öðruvísi en fyrri kreppur að því leyti að maður finnur að fólki finnst að þetta verði tímabundið ástand. Í síðustu stóru kreppu var minni meðvitund um að þetta væri tímabundið ástand, og það er þá hvati fyrir fyrirtæki að vilja ekki missa markaðshlutdeildina. Það sem er einnig öðruvísi núna er að það er meiri hegð-unarbreyting í samfélaginu og að fyrirtæki eru á fullu að reyna að eltast við þessar hegðunarbreytingar og það kostar auðvitað tíma, og nú ættu fyrirtæki að fjárfesta í þannig verkefnum.“
Valgeir segist nokkuð brattur þrátt fyrir kófið og að fyrirtækið sé ekki komið að þolmörkum. Þrot Fíton sé enginn vísbending um slíkt. „Nei, nei, nei, við lifum þetta af. Við erum ekki að fara neitt. Okkur hefur tekist að vinna þetta ár án þess að vera að tapa peningum.“Aðspurður um hvernig honum lítist á að fyrrverandi samstarfsmaður hans Þormóður sé aftur á leiðinni í auglýsingabransann segir hann: „Ég vona bara að þeim gangi vel. Það eru tækifæri í því þegar maður er að byrja eitthvað alveg frá grunni eins og þeir eru að gera, að hugsa hlutina frá grunni og skipuleggja sig. Það gæti komið eitthvað skemmtilegt út úr því.“