fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Tímavélin – „Lesbísk fóstra í súpervinnu“ og Hjallastefnan

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 25. október 2020 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fátt hefur verið meira til umræðu meðal fólks síðustu vikurnar en hið kynjaskipta barnaheimili í Hafnarfirði, sem nýlega tók til starfa,“ svo sagði í Þjóðlífi þann 1. október árið 1989. Nýr leikskóli, Garðavellir við Hjallabraut, hafði tekið til starfa í Hafnarfirði undir stjórn Margrétar Pálu Ólafsdóttur. Leikskólinn var í daglegu tali kallaður Hjalli en við þann leikskóla hefur hugmyndafræði Margrétar, Hjallastefnan, verið kennd. Ekki tóku allir hugmyndum Hjallastefnunnar fagnandi. „Raunar hefur hin fyrirhugaða kynjaskipting farið svo fyrir brjóstið á sumum konum í fóstrustétt að þær sáu ástæðu til að biðja Jafnréttisráð að skoða þetta mál.“

Frumkvöðla fóstra með hugmynd

Margrét Pála Ólafsdóttir útskrifaðist sem fóstra árið 1981. Hún byrjaði þá strax að vinna að nýjum hugmyndum í leikskólastarfi en henni þótti leikskólastarf á þeim tíma ekki miða nægilega að þörfum barnanna og minna meira á nokkurs konar „geymslur“ fyrir börnin á meðan foreldrarnir voru í vinnu.

Hún var einnig virk í félagsmálum og stjórnmálum og eftirsótt í störf á því sviði eða allt þar til árið 1984 þegar hún, þá 26 ára að aldri, kom út úr skápnum og skildi við eiginmann sinn og barnsföður.

„Ég var 26 ára og hafði verið í hjónabandi í átta ár þegar ég varð ástfangin af annarri konu. Það gerði útslagið. Ég gat ekki hugsað mér að snúa aftur til þess lífs sem ég hafði lifað,“ sagði Margrét Pála í samtali við Eintak árið 1994.

Samkynhneigð á Íslandi var ekki jafn samfélagslega viðurkennd þegar Margrét Pála kom út úr skápnum og nú er og varð kynhneigð hennar ein af þeim ástæðum sem stefna hennar í leikskólamálum átti eftir að verða gagnrýnd fyrir. Á vefsíðu Hjallastefnunnar segir um sögu stefnunnar: „Ítrekað var ráðist að Margréti Pálu og kynhneigð hennar blandað í málin, bæði á fundum og í fjölmiðlum en Margrét Pála var fyrsti kennarinn til að koma úr felum á tíma þegar samkynhneigð var enn álitin varasöm og alls ekki viðeigandi að „svona fólk væri í starfi með börnunum“.“

Umdeild hugmyndafræði

Hugmyndir Margrétar um kynjaskiptan leikskóla fengu gagnrýni úr mörgum áttum. Meðal annars þótti hún stríða gegn jafnréttisbaráttu undanfarinna ára þar sem konur höfðu barist fyrir því að vera metnar til jafns við karlmenn

Margrét Pála hafði þó veitt því eftirtekt og lesið rannsóknir sem bentu til þess að drengir fengju mun meiri athygli kennara en stúlkur, þeir tækju meira pláss á meðan stúlkum var kennt að vera prúðar og taka minna pláss. Börnum voru því tileinkuð ákveðin einkenni sinna kynja allt frá fæðingu og birtist þetta í hegðun þeirra á leikskólaaldri.

„Ég vil að telpurnar geti sýnt frumkvæði án þess að einhver drengur eða drengir verði fyrri til. Á sama tíma vil ég að drengirnir geti sýnt sínar blíðu tilfinningar án þess að telpurnar steli frá þeim glæpnum, eins og gerist annars þegar kynin eru saman,“ sagði Margrét í samtali við Þjóðlíf 1989.

Fóstrufélag Íslands lýsti áhyggjum sínum af kynjaskiptingunni á Hjalla. Formaður félagsins tók fram í viðtölum við blöð og útvörp að með þessu væri stigið spor í ójafnréttisátt

Margrét var á öndverðri skoðun. Með kynjaskiptingunni væri þvert á móti stuðlað að jafnrétti þar sem hvoru kyni fyrir sig gæfist kostur á að rækta eiginleika sem samfélagið að jafnaði veitti þeim ekki rými til að gera. Nokkurs konar slagorð leikskólans varð að í Hjalla í Hafnarfirði væru „hraustustu stelpurnar“ og „prúðustu drengirnir“.

Strákum var kennt að bera umhyggju hver fyrir öðrum og hlúa að vinum sínum á meðan stelpunum var kennt að sýna kjark, stökkva, ganga berfættar í snjó og hrauni.

Samkynhneigð ekki fötlun

Ári 1991, þegar leikskólinn hafði verið opinn í rúmt ár, birti Pressan frétt um að Margrét Pála hefði fengið rúmlega 160 yfirvinnutíma greidda og að Margrét hefði sagt upp störfum þegar það fyrirkomulag var gagnrýnt. Margrét birti eftirminnilega grein í fjölmiðlum til að svara fyrir ásakanirnar undir fyrirsögninni: Lesbísk fóstra í súpervinnu! Taldi Margrét að gagnrýnina mætti rekja til kynhneigðar hennar.

„Ég sé aðeins eina skýringu. Persónan ég virðist trufla ákveðna aðila meira en tali tekur. Mér er óheimilt að vinna með börn og það kemur ekki peningum við: hins vegar er ég lesbía og hef þar af leiðandi þurft að hlusta á dylgjur um öfuguggastarfsemi leikskólans og um sjálfa mig frá fyrsta degi í starfi hér.“

Vildi Margrét með greininni senda skýr skilaboð. „Samkynhneigð mín er ekki fötlun í starfi og lesbískar fóstrur eru jafn færar öðrum um að stjórna leikskóla. Börn bíða ekki tjón á sál né líkama, þótt ég umgangist þau og vinni með þeim.“

Fjöldi fóstra á Hjalla sagði upp störfum í samstöðu með Margréti. Foreldrar barnanna í Hjalla létu einnig til sín taka, enda mjög ánægðir með störf Margrétar, og náðist að lokum samkomulag við Hafnarfjarðarbæ og Margrét fékk fullt frelsi um starfshætti leikskólans. Í opnu bréfi foreldra sem birtist í Fjarðarpóstinum í febrúar 1991 sagði:

„Þroski barnsins míns og sjálfsbjargarviðleitni þess hefur eflst alveg ótrúlega á þeim skamma tíma sem hún hefur dvalið þar, að ég tali nú ekki um ánægjuna sem skín úr andliti hennar er hún talar um leikskólann sinn og aðalmanneskjan er Magga Pála sem „ræður öllu þar“. Hún bíður eftir því að komast í leikskólann sinn á daginn og biður mig að sækja sig „seint“.“

Verðlaunuð fyrir jafnrétti

Eftir því sem tíminn leið fjaraði gagnrýnin út. Erlendir aðilar sýndu stefnunni mikinn áhuga og gerð var heimildarmynd um starf skólans með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar. Þúsundir kennara frá Norðurlöndunum heimsóttu Hjalla sem var kallaður „Umtalaðasti leikskóli Evrópu“.

Margrét Pála, hugmyndir hverrar voru útnefndar ójafnræðislegar í upphafi, hlaut svo jafnréttisverðlaun Jafnréttisráðs árið 1997 fyrir Hjallastefnuna. Í dag er töluverður fjöldi leikskóla og barnaskóla sem starfa undir merkjum Hjallastefnunnar. Aðrir leikskólar hafa tekið upp aldursskiptingu en kynjaskiptingin er enn sérstaða Hjallastefnuleikskóla.

Þessu spáði Margrét strax í upphafi. Í samtali við Tímann árið 1989 sagði hún:

„Ég tel að þessi nýja gerð af aldursskiptingu eigi eftir að verða mjög almenn því ókostirnir við að blanda börnunum saman af ólíkum aldri eru margir. Ég held aftur á móti að kynjaskiptingin muni ganga hægar. Ég trúi því hins vegar að eftir nokkra áratugi muni fólk ekki hrökkva við þó að minnst sé á kynjaskiptingu.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“