Þetta kemur fram í viðtali Sky News við Hutchison. Í viðtalinu kemur einnig fram að ef Trump verður endurkjörinn forseti muni hann virða skuldbindingu aðildarríkjanna um að koma hvert öðru til aðstoðar ef á þau er ráðist. Það ákvæði, grein 5 í sáttmála aðildarríkjanna, hefur aðeins einu sinni verið virkjað en það voru Bandaríkin sem gerðu það í kjölfar hryðjuverkaárásanna á landið í september 2001.
Hún segir að Trump hafi verið mjög afdráttarlaus með að biðja aðildarríkin að auka útgjöld sín til varnarmála og að það hafi styrkt NATO. Einnig sé vitað að það þurfi að gera meira til að NATO geti orðið sá öryggisventill sem þörf er á.
Trump sagði NATO vera „úrelt“ skömmu eftir að hann tók við embætti og hótaði að draga Bandaríkin út úr bandalaginu ef aðildarríkin uppfylltu ekki kröfur um að verja 2% af vergri landsframleiðslu til varnarmála.