Í Sachsen segja yfirvöld að öfgahægrimenn eigi nú 23 byggingar og leigi fjórar til viðbótar. Óttast yfirvöld í fylkinu að þetta geti haft í för með sér „samþjöppun öfgahægrisinnaðra fjölskyldna í litlum bæjum“. Leyniþjónusta fylkisins er einnig áhyggjufull en í skýrslu hennar frá 2018 kemur fram að eignir öfgahægrimannanna í Sachsen séu „mikilvægar starfsstöðvar“ samtaka þeirra til langs tíma litið. Út frá þeim munu þeir reyna að breiða hugmyndafræði sína út sagði Dirk-Martin Christian, yfirmaður leyniþjónustu Sachsen, í samtali við Frankfurter Allgemeine Zeitung.
Samtök öfgahægrimanna reyna að fá ungt fólk til liðs við sig, til dæmis með því að bjóða upp á bardagaíþróttir.
„Þar eiga ungir karlmenn, sem hafna ríkisvaldinu og samfélaginu, að þjálfast leynilega til að berjast gegn lýðræðinu okkar,“
sagði Dirk-Martin Christian.
Í Thüringen, nágrannafylki Sachsen, eiga öfgahægrimenn minnst 25 fasteignir að sögn Christopher Lammert, talsmanns Mobit sem eru samtök sem ráðleggja leigusölum og fasteignaeigendum ef öfgahægrimenn vilja komast inn á fasteignamarkaðinn. Hann telur að það mikilvægasta fyrir öfgahægrimenn sé að hafa fasteignir til umráða þar sem þeir geta haldið tónleika og haft aðra viðburði sem blaðamenn og fréttamenn komast ekki inn á. Þá er ekki hægt að staðfesta hvað fer fram, til dæmis hvort hvatt sé til ofbeldisverka. Einnig er mikilvægt að hafa umráð yfir fasteignunum til að samtök öfgahægrimanna geti sjálf hirt allan aðgangseyri og stundum snýst þetta um peningaþvætti.