fbpx
Mánudagur 10.mars 2025
Fréttir

Sakar Félag atvinnurekenda um grímulausa hagsmunabaráttu – „Náðarfaðmur Ríkisins er þægilegur“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 21. október 2020 21:41

Ingvar Smári Birgisson (t.v.) og Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er ekki á hverjum degi sem hagsmunasamtök fyrirtækja hafa áhyggjur af því að rekstur ríkiseinokunarverslunar laskist. Svona eru grímur Félags atvinnurekenda margar,“ segir Ingvar Smári Birgisson lögmaður, en hann gagnrýnir harðlega afstöðu Félags atvinnurekenda til áfengisfrumvarps Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.

Í frumvarpinu er frelsi aukið í áfengissölu með þeim hætti að heimilt verður að selja áfengi í netsölu og heimsendingum. Hefur þrýstingur um slíkt verið frá veitingahúsaeigendum en heimsendingar á mat hafa aukist mjög í kórónuveirufaraldrinum; veitingahúsin geta hins vegar ekki sent heim mat nema lögum verði breytt.

Í umsögn Félags atvinnurekenda við frumvarpið eru viðraðar efasemdir um það. Það tekur Ingvar óstinnt upp í grein á Vísir.is í dag. Þar segir:

„Þegar ég las umsögn Félags atvinnurekenda við frumvarpsdrög dómsmálaráðherra að breytingum á áfengislögum brá mér í brún. Félag atvinnurekenda lýsti yfir áhyggjum af skorti á ítarlegri greiningu á áhrifum frumvarpsins á rekstur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Komst félagið svo að orði að ríkiseinokunarverslunin hefði „engin úrræði“ til að bregðast við samkeppni netverslana, yrði frumvarpið að lögum. Með öðrum orðum hefur Félag atvinnurekenda áhyggjur af því að rekstur ríkiseinokunarverslunar muni laskast. Þetta hefði verið forsíðufrétt í einhverjum löndum!“

Ingvar segir að Félag atvinnurekenda styðji suma atvinnurekendur, þess á milli beri félagið hagsmuni neytenda fyrir brjósti og stundum eigi ríkisrekstur samúð félagsins:

„En svona geta grímur Félags atvinnurekenda verið margar. Einn daginn ber félagið gunnfána frelsis og þann næsta hefur félagið áhyggjur af afdrifum ríkiseinokunarverslunar. Sem dæmi um hið fyrrnefnda má nefna þau tilvik þegar Félag atvinnurekenda gætir hagsmuna innflutningsfyrirtækja á matvælum. Félagið hefur lengi vel barist gegn tollum á innfluttum matvælum og tekið margan slaginn við Bændasamtök Íslands og landbúnaðarráðherra. Félagið beitir fyrir sig hagsmunum neytenda í þessari baráttu og skeytir lítið um hagsmuni bænda, en þeir eru einmitt atvinnurekendur sem greiða ekki í sjóði Félags atvinnurekenda. Því er básúnað af hálfu félagsins að auka megi úrval og lækka verð, neytendum til hagsbóta, með minni ríkisafskiptum og niðurfellingu tolla af landbúnaðarvörum.“

Stærstu framleiðendur og innflytjendur áfengis

Ingvar bendir á að innan Félags atvinnurekenda séu stærstu framleiðendur og innflytjendur áfengis. Augljóst sé að hugur félagsins sé við þægilegt hillupláss í verslunum ÁTVR fyrir félagsmenn. Þess vegna standi félagið sífellt í veginum fyrir breytingum á áfengislögum í frjálsræðisátt:

„Meðal félagsmanna í Félagi atvinnurekenda eru einnig stærstu áfengisframleiðendur landsins sem og áfengisinnflytjendur. Nær allir minni áfengisframleiðendur standa utan samtakanna og eru t.d. í Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa. Félag atvinnurekenda hefur í yfir áratug staðið gegn öllum frumvörpum á Alþingi sem hafa haft það að markmiði að færa fyrirkomulag á sölu áfengis í frjálsræðisátt. Þetta er engin tilviljun og hafa samtökin hafa beitt ýmsum rökum fyrir sig í þeim efnum. Alveg sama hvers konar áfengisfrumvarp lítur dagsins ljós, þá telja samtökin alltaf nauðsynlegt að „heildstætt mat“ fari fram og engu megi breyta án þess að fallist sé á allar tillögur félagsins. Breyta þarf álagningu áfengisgjalds, reglum um áfengisauglýsingar og jafnvel auka eftirlit hins opinbera eftir atvikum svo eitthvað sé nefnt. Augljóslega er um fyrirslátt að ræða, enda veit félagið að það er fullkomlega óraunhæft fyrir nokkurn þingmann að keyra í gegnum Alþingi allar tillögur félagsins.“

Náðarfaðmur ríkisins

Ingvar sakar Félag atvinnurekenda um grímulausa hagsmunabaráttu fyrir sérhagsmunum fyrirtækja sem eru í félaginu, á kostnað hagsmuna neytenda og aðila á markaði utan félagsins. Allar viðvörunarbjöllur hringi við lestur umsagnar félagsins við frumvarp dómsmálaráðherra:

„Athygli vekur að í þessu máli virðist engu skipta fyrir félagið að frumvarp dómsmálaráðherra leiðir til aukins úrvals og lægri verða fyrir neytendur. Slíkt hið sama skiptir þó félagið miklu máli þegar rætt er um innflutning á matvælum. Það fer ekki á milli mála í hvaða erindagjörðum Félag atvinnurekenda er, enda fara allar viðvörunarbjöllur í gang þegar fyrirtæki með milljarðaveltu beita hagsmunasamtökum fyrir sig í þeim tilgangi að festa í sessi ríkiseinokunarkerfi. Í umsagnargerð félagsins réðu hagsmunir neytenda ekki för, heldur hagsmunir félagsmanna, og félagsmenn eru ekki spenntir fyrir því að semja um verð og hillupláss við Bónus og Krónuna. Náðarfaðmur Ríkisins er þægilegur, hilluplássið aðgengilegt fyrir stærstu áfengisframleiðendurna og óþægilegt er að laga sig að breyttum aðstæðum. Þetta kallast á mínu heimili grímulaus hagsmunabarátta.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rubio og Musk hnakkrifust í Hvíta húsinu – Trump reynir að breiða yfir deilurnar

Rubio og Musk hnakkrifust í Hvíta húsinu – Trump reynir að breiða yfir deilurnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jörfi opnar nýja fagverslun í Grænum iðngörðum á Akranesi

Jörfi opnar nýja fagverslun í Grænum iðngörðum á Akranesi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Undirskriftalisti til að koma í veg fyrir lokun hjá Janusi endurhæfingu

Undirskriftalisti til að koma í veg fyrir lokun hjá Janusi endurhæfingu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reynsluboltar hjóla í Björn: „Hissa að sjá þaulreyndan blaðamann skrifa af svona barnaskap“

Reynsluboltar hjóla í Björn: „Hissa að sjá þaulreyndan blaðamann skrifa af svona barnaskap“