Sérfræðingar telja að myndbirtingin sé liður í áætlun belgísku hirðarinnar til að reyna að draga úr því tjóni sem mál Delphine hefur valdið konungsfjölskyldunni. Hirðin hafi sætt sig við að ekki sé hægt að gera meira í málinu annað en að sætta sig við niðurstöðuna og reyna að vinna úr því í framhaldinu.
Mál Delphine de Saxe-Cobourg, sem hét áður Boël, hefur lengi verið í kastljósi fjölmiðla enda sérstakt mál fyrir evrópska konungsfjölskyldu. Fyrir 15 árum sagði Delphine að hún væri sannfærð um að Albert, þáverandi Belgíukonungur, væri faðir hennar. Móðir hennar, Sybille de Selys Longchamps, sagðist hafa átt í ástarsambandi við hann á árunum 1966 til 1984.
Albert konungur, sem er nú 86 ára, vísaði þessu á bug. Dómstóll í Brussel fyrirskipaði honum síðar að láta lífsýni í té svo hægt væri að sannreyna hvort hann væri faðir Delphine. Dagsektir, upp á sem nemur sem svarar til um 814.000 íslenskra króna, voru lagðar á hann fyrir hvern dag sem hann léti hjá líða að láta sýnið í té.
Sýnið sýndi að hann er faðir Delphine. Í kjölfarið játaði Albert að hafa átt í ástarsambandi við móður hennar.
Í kjölfarið krafðist Delphine þess að fá prinsessutitil og að vera ávörpuð ”konunglega hátign”. Þetta fékk hún í gegn fyrir dómi þann 1. október.