Bræðurnir Arnar og Rúnar Halldórssynir og dúett þeirra „The Boys“, slógu heldur betur í gegn í Noregi á tíunda áratugnum og smituðu bæði Norðmenn og Íslendinga af algjöru „Boys-æði“.
„Tveir ungir, íslenskir piltar eru að gera allt vitlaust í Noregi,“ var skrifað í DV í september árið 1993. „Norskir fjölmiðlar tala um „The Boys-feber“ eða „Boys-æðið“ og útvarpsstöðvarnar efna til sérstakrar Boys-viku. Pósturinn neitar að bera bréfaflóðið frá aðdáendum strákanna heim til þeirra, það sé svo mikið að foreldrarnir verði að sjá um flutninginn. Símanúmerið þeirra gengur kaupum og sölum, einkum milli ungra stúlkna, og gangverðið er 10 krónur norskar. Og síminn á heimilinu stoppar ekki allan liðlangan daginn.“
Slá í gegn
Bræðrunum Rúnari og Arnari Halldórssonum skaut upp á stjörnuhimininn í Skandinavíu árið 1993. Þá voru þeir 12 og 11 ára gamlir. Árið áður höfðu þeir tekið þátt í árlegri sönghæfileikakeppni í Þelamörk í Noregi, en sú keppni var afar vinsæl. Um samkeppni var að ræða þar sem fleiri hundruð börn kepptust um að komast í hæfileikasönghóp Varden/ Busk, sem ferðaðist vítt og breitt um Þelamörk og hélt tónleika. Rúnar og Arnar tóku þátt, enda höfðu þeir verið aldir upp á söngelsku heimili. Faðir þeirra var Halldór Kristinsson, betur þekktur sem Dóri í Tempó, og móðir þeirra, Eyrún Antonsdóttir, var einnig mjög söngelsk.
Rúnar og Arnar voru meðal þeirra átta barna sem valin voru í hæfileikahópinn og þar með rúllaði boltinn af stað. Bræðurnir spiluðu á gítara og sungu saman gamla slagara frá meðal annars Bítlunum, Everly Brothers og fleirum. Í kjölfarið fengu þeir plötusamning fyrir þrjár plötur.
Kvennabósar
„Stelpurnar hringja mjög mikið,“ sagði Rúnar í samtali við DV árið 1993. „Svo virðast allir þekkja okkur á götu. Sumir stoppa okkur og biðja um eiginhandaráritun.“ Bræðurnir sögðust hafa vakið mikla athygli meðal ungra stúlkna. Varð ágangurinn svo mikill að fjölskyldan þurfti ítrekað að skipta um símanúmer.
„Stelpurnar eru meira á eftir Rúnari en mér. En það var samt ein fimmtán ára sem spurði hvort hún gæti orðið kærastan mín. Ég var fljótur að segja nei, því hún var svo gömul,“ sagði Arnar í áðurnefndu samtali við DV
Bræðurnir urðu hratt mjög frægir í Noregi og að sjálfsögðu vakti það athygli hér heima á Íslandi, líkt og vanalega þegar Íslendingar skara fram úr á erlendri grund.
Jarðbundnir drengir
Líf þeirra næstu árin einkenndist af tónleikahaldi, plötuútgáfu og framkomu í útvarpi og sjónvarpi. Norskir fjölmiðlar fylgdust af ákafa með öllu sem þeir gerðu og það gerðu íslenskir miðlar sömuleiðis. Fjöldi viðtala var tekinn við bræðurna og foreldra þeirra á þessum tíma og allt heyrði til frétta. Það var frétt þegar bræðurnir komu heim til Íslands til að halda tónleika, þegar þeir komu til landsins til að fermast, þegar þeir fengu sér kanínu og jafnvel þegar þeir bökuðu fyrir jólin.
Þrátt fyrir nokkuð mikla frægð á ungum aldri þóttu bræðurnir engu að síður jarðbundnir. Foreldrar þeirra lögðu áherslu á að skólinn hefði forgang fram yfir tónlistina og auk þess áttu drengirnir áhugamál sem þeir vildu gjarnan sinna. Fótbolti, skátarnir og skák. Þeir bjuggu einnig að auðugu ímyndunarafli og hugmyndaauðgi. Í viðtali við Morgunblaðið í júní 1993 lýsti móðir þeirra nokkrum skemmtilegum uppákomum:
„Eyrún segir að strákarnir séu mjög hugmyndaríkir og þeim leiðist aldrei. „Það var enginn leikvöllur í byggðarlaginu okkar, svo að Arnar hringdi í Barnaverndarráð og bað um að bætt yrði úr því. Þegar vantaði fjármagn fyrir leiktækjunum opnuðu þeir flóamarkað og gátu þannig safnað upp í leiktækin. Það var kominn leikvöllur eftir tvö ár.“
Eitt sinn vildu þeir gefa kettlinga og útbjuggu stórt spjald sem þeir festu við hjólbörur. Síðan óku þeir um göturnar með kettlingana. Það gekk þó ekki eins vel að koma þeim út og þeir vonuðu, því aðeins einn kettlingur gekk út.“
https://www.youtube.com/watch?v=IClJCg4_E2s
Hættu og fluttu
Ekkert lát virtist á vinsældum
bræðranna. Í júní 1994 sagði í Morgunblaðinu að bræðurnir hefðu fengið um 10 þúsund bréf send frá aðdáendum, einkum stelpum. „Íslensku strákarnir í The Boys þurfa ekki að leita eftir pennavinum, svo mikið er víst. Þeir Arnar og Rúnar hafa undanfarið fengið um það bil tíu þúsund bréf og er meirihlutinn frá stúlkum á aldrinum 10-16 ára.“
Árið 1996 dró þó til tíðinda. Bræðurnir voru orðnir táningar og ákvað móðir þeirra að flytja með þá aftur heim til Íslands. „The Boys“ voru hættir og næsta verkefni bræðranna var að takast á við unglingsárin á Íslandi.
Lífið eftir The Boys
Rúnar og Arnar eru fullorðnir menn í dag. Í samtali við DV í október 1995 greindu bræðurnir frá framtíðaráformum sínum. „Mig langar að verða arkitekt. Ég hef svo gaman af að lita og teikna,“ sagði Rúnar. „Mig langar að verða lögfræðingur og hjálpa fólki,“ sagði Arnar. Gekk það eftir hjá Rúnari, sem starfar sem arkitekt í dag. Arnar er þó ekki lögfræðingur. Hann hefur haldið sig innan skapandi greina og var nýlega ráðinn sem aðstoðarhönnunarstjóri á auglýsingastofunni Brandenburg.
Arnar sagði í samtali við DV í vikunni að það besta við að vera barnastjarna hafi verið búningarnir. „Rauðar rennimjúkar silkiskyrtur og hvítar útvíðar buxur – mamma sá um að sauma. Svo náttúrlega líka öll ferðalögin og fólkið sem maður hitti. Versta kannski bara líka ferðalögin og fólkið sem maður hitti? Var líka erfitt að takast á við unglingaveikina verandi barnastjarna, passaði ekki alveg saman – enda hættum við að spila þegar ég var um 14 ára.“
Arnar er orðinn faðir. Aðspurður segist hann fullviss um að börn hans muni láta til sín taka á sviði tónlistar í framtíðinni og vera þar með þriðji ættliðurinn í tónlist. „Er nokkuð viss um að þau fara að segja til sín á sviði í framtíðinni. Öll þrælmúsíkölsk, minnsta fjögurra ára er frekar mikið að semja „on the flow“ og skipar mér fyrir að spila undir.“
En lendir Arnar enn í því að vera þekktur úti á götu sem Arnar í „The Boys“ ? „Tja. Ekki úti á götu, nei, enda orðinn gamall. Mest eru það helst vinirnir sem eru enn að tengja og djóka. Vel lengi var maður ekkert mikið fyrir að tala um fyrri tíma, en nú þegar maður er orðinn eldri er þetta allt saman alveg eitthvað svo hrikalega dúllulegt og sætt. Meira að segja þurrkaði ég rykið af gullplötunum um daginn, en hengdi þær nú samt ekki upp.“