Danska ríkisútvarpið skýrði frá þessu í gærkvöldi. Fram kemur að blóðflokkur fólks geti skipt máli varðandi hvort það smitast af veirunni eða ekki. Þeir sem eru í blóðflokki 0 smitast sjaldnar en þeir sem eru í A, B eða AB.
Rannsóknin var unnin af vísindamönnum hjá dönsku blóðbönkunum, Árósaháskóla og Syddansk háskólanum.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eru 13% minni líkur á að smitast af kórónuveirunni ef fólk er í blóðflokki 0. Þetta þýðir að ef 100 smitaðir einstaklingar, í blóðflokkum A, B eða AB, finnast við skimun þá finnast aðeins 87 í blóðflokki 0 í sömu skimun.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í vísindaritinu Blood Advances.
Næsta verkefni vísindamannanna er að reyna að finna út úr af hverju blóðflokkur 0 veitir betri vernd gegn veirunni.
„Við vitum ekki ástæðuna ennþá en við vitum frá öðrum smitsjúkdómum að það geta verið tengsl á milli blóðflokks og þess að fá sýkingu,“
er haft eftir Torben Barington, prófessor við háskólasjúkrahúsið í Óðinsvéum, sem vann að rannsókninni.
Lars Østergaard, yfirlæknir á háskólasjúkrahúsinu í Árósum, sagði að niðurstöðurnar geti hugsanlega komið að gagni þegar bóluefni gegn veirunni verður tilbúið. Þá verði hugsanlega hægt að nota niðurstöðurnar þegar kemur að því að forgangsraða í bólusetningu.
Þrátt fyrir að líkurnar á að smitast séu minni fyrir fólk í ákveðnum blóðflokkum er mikilvægt að hafa í huga að allir geta smitast af veirunni. Barington lagði áherslu á að fólk haldi áfram að fylgja leiðbeiningum yfirvalda óháð því í hvaða blóðflokki það er.