Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Silju Dögg Gunnarsdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, að staðan sé grafalvarleg og hún sé dauðhrædd við veturinn.
„Ég vona að stjórnvöld komi til móts við þennan stóra hóp með sértækum aðgerðum. Það hefur nú þegar talsvert verið gert, en það þarf meira til ef atvinnuleysið er að ná þessum hæðum,“
sagði hún einnig.
Morgunblaðið segir að samkvæmt því sem komi fram í nýútkominni skýrslu Vinnumálastofnunar þá sé nú talið að atvinnuleysi á landsvísu sé komið yfir 10% og muni aukast enn frekar á næstu mánuðum. Í september mældist atvinnuleysi 9,8%. Af því voru 9.0% almennt atvinnuleysi en 0,8% tengt minnkuðu starfshlutfalli.
Á Suðurnesjum mældist heildaratvinnuleysi í ágúst 18% en mældist 19,6% í september og talið er að það fari í 19,8% í október.
Í gögnum, sem er hægt að sjá á vef Vinnumálastofnunar, kemur fram að útlitið sé enn dekkra því stofnunin spáir 21,9% atvinnuleysi á Suðurnesjum í desember. Verst verður ástandið í Reykjanesbæ en þar spáir stofnunin 24,6% atvinnuleysi í desember og að atvinnuleysi kvenna geti orðið allt að 26,5% í desember.