Þetta var meðal þess sem Kári sagði í viðtali í útvarpsþættinum Speglinum á RÚV. „Þegar þetta sprakk allt saman út fyrir rúmlega tveimur vikum þegar greindust 75 einstaklingar sama daginn þá hefði verið skynsamlegt af okkur að grípa til miklu hertari aðgerða, en við gerðum það ekki,“ segir Kári.
„Það var tekin sú ákvörðun að bíða og sjá. Það er stundum þannig ef maður bíður bara og sér og grípur ekki inn í að þá verður maður fyrir svona áfalli. Og nú erum við að takast á við það. Ég vil reyndar leggja á það áherslu að það er miklu auðveldara að segja þetta núna heldur en fyrir tveimur vikum.“
Þegar reglur eru liðkaðar verða menn að vera tilbúnir að grípa hratt og ákveðið inn í þegar smit skjóta aftur upp kollinum segir Kári. „Við liðkuðum til en það kom í ljós að við vorum ekki eins vel undir það búin að grípa inn af hörku þegar það fór að brjótast út smit. Við værum ekki á þeim stað sem við erum í dag ef við hefðum gripið inn í þegar hópsmitin brutust út í öldurhúsunum niður í miðbæ.“
Þá segir Kári að skilaboðin til samfélagsins verði að vera skýr. Það má ekki byggja þetta á alls konar undanþágum. Það verða að vera skýr skilaboð. Eitt af því sem að ég held að sé lífsnauðsynlegt fyrir okkur er að taka upp grímuskyldu. Gríman kemur ekki í veg fyrir að menn geti athafnað sig við alls konar hluti. Hún hefur ekki áhrif á atvinnu í landinu,“ segir hann og bætir við að grímurnar séu afskaplega kraftmikil tæki þegar kemur að því að koma í veg fyrir smit. „Þannig að mér fyndist eðlilegt að taka upp grímuskyldu í samfélaginu.“