Héraðssaksóknari hefur ákært Viktor Heiðdal Sveinsson fyrir „meiriháttar brot á skattalögum“ og peningaþvætti með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum frá 2014 til ársins 2018. Mun Viktor hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram tug milljóna greiðslur frá félögunum Ferðaskrifstofan Óríental ehf., Farvel ehf., og Snorrason holding ehf.
Tekjurnar sem um ræðir og Viktor mun samkvæmt ákæru ekki hafa talið fram nema rúmum 81 milljón króna. Skattarnir sem Viktor hefði átt að greiða af þessari upphæð eru tæpar 34 milljónir króna.
Vangreidd gjöld nema sem hér segir:
Árið 2013: 6.889.252 kr.
Árið 2014: 9.947.998 kr.
Árið 2015: 5.795.319 kr.
Árið 2016: 5.328.780 kr.
Árið 2017: 5.820.290 kr.
Þá er Viktor ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa nýtt ofangreindar fjárhæðir eða geymt í eigin þágu og eftir atvikum í þágu félaga í sinni eigu.
Viðurlög við skattalagabrotum sem Viktor er ákærður fyrir eru sektir og/eða allt að sex ára fangelsi.
Viðurlög við peningaþvætti eru einnig allt að sex ára fangelsi.
Viktor Heiðdal komst í fréttirnar í lok síðasta árs þegar ferðaskrifstofan Farvel, sem hann átti, var svipt ferðaskrifstofuleyfi sínu. Sátu tugir manna uppi með sárt ennið. Meðal annars voru 20 manns í miðri ferð sem Farvel hafði skipulagt fyrir þau og festist fólkið á Tælandi vegna sviptingu ferðaskrifstofuleyfisins.
Í janúar á þessu ári vísaði svo Ferðamálastofa málinu til lögreglunnar vegna gruns um að Viktor hefði eitthvað óhreint í pokahorninu. Komu þá fram í fjölmiðlum ásakanir um að Viktor hefði markvisst verið að hringja í fólk sem ætti bókaðar ferðir og biðja þau um að greiða þær að einhverju eða öllu leyti. Hafi Viktor vitað að ferðaskrifstofan stefndi í leyfissviptingu og/eða gjaldþrot kynni slíkt að kallast fjársvik.
Í viðtali við Mannlíf síðan í ágúst sagðist Viktor ekki óttast lögreglurannsókn: „Nei nei, alls ekki. Ég bara fagna því að þetta sé rannsakað. Það er ekkert óhreint mjög í pokahorninu þarna.“
Þeirri lögreglurannsókn virðist nú hafa lokið með ákæru á hendur Viktors fyrir, sem fyrr segir, meiriháttar skattalagabrot.