Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að kannað verði hvort fýsilegt sé að byggja slíka brú, hvað það muni kosta, hver þörfin sé og hversu gagnleg hún yrði. Sumir gagnrýnendur hafa nú þegar hafnað hugmyndinni og segja hana óhagstæða og að betra sé að eyða peningunum í önnur verkefni.
Johnson hefur sjálfur nefnt að brúin gæti kostað um 15 milljarða punda. Hún myndi ná frá Portpatrick í Skotlandi til Larne á Norður-Írlandi. Þetta er um 33 km leið yfir Írlandshaf.
Fyrirmyndin er sótt til Eyrarsundsbrúarinnar á milli Danmerkur og Svíþjóðar en hún er um 16 km á lengd.
Sky segir að Ian Firth, verkfræðingur og brúarhönnuður, telji að „margar tæknilegar áskoranir“ fylgi verkefninu en það „ætti að vera mögulegt“ að hrinda því í framkvæmd en það yrði samt sem áður mikil áskorun.
„Mín tilfinning er að þetta ætti að vera mögulegt því þegar upp er staðið þá snýst þetta allt um peninga – allt er mögulegt ef þú setur nægilega mikla peninga í verkefnið.“
Fyrr á árinu sögðu stjórnmálamenn frá Skotlandi og Norður-Írlandi Grant Shapps, samgönguráðherra, að þeim milljörðum punda sem slík brú muni kosta sé betur varið í aðra nauðsynlega innviði. Talsmaður samtaka flutningafyrirtækja tók í sama streng.