Neyðarstigi Almannavarna var lýst yfir í dag af ríkislögreglustjóra í samráði við sóttvarnalækni. Er það gert vegna kórónuveirunnar en smitum hefur farið fjölgandi hratt undanfarið og eykur það líkur á veldisvexti. Greint var frá þessu í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.
„Frá 15. september til 4. október hafa um 630 einstaklingar greinst með COVID-19 innanland,“ segir í tilkynningunni. Jafnframt hefur daglegur fjöldi nýgreindra verið um 30-40 og hlutfall þeirra sem er í sóttkví verið um 50%. Fjöldi þeirra sem veikst hefur alvarlega hefur aukist og hafa um 20 einstaklingar þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda. Í dag eru þrettán á sjúkrahúsi, þar af þrír á gjörgæslu og tveir á öndunarvél.“
Virkjun neyðarstigsins hefur ekki mikið meiri áhrif á almenning en hættustigið sem hefur varað síðan í lok maí á þessu ári.